149. löggjafarþing — 126. fundur,  19. júní 2019.

fiskeldi.

647. mál
[19:35]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Fyrst er það að segja að ég hef gagnrýnt það mjög í meðförum nefndarinnar, og það hefur ekki verið neinn feluleikur með það, að mér hafa þótt nefndarmenn leggja mikið upp úr því að nálgast þetta mál þannig að það væri þeim, hvort sem það var viljandi eða ekki, óljóst hvaða áhrif sú lína sem lögð er til í meirihlutaálitinu hefði á hvert svæði fyrir sig. Svörin við þeirri gagnrýni voru að kalla eftir samantekt frá Skipulagsstofnun um leyfisbeiðnir sem eru í gangi og hvorum megin hryggjar þau féllu miðað við ýmsar gefnar forsendur. Þar var skipt upp í Austurland og Vestfirði. Ég hef ekki farið dult með að þetta þótti mér allsendis fráleit nálgun nefndarmanna. Ég hef líkt því við það að hv. nefndarmenn hafi viljað nálgast málið þannig að síðar væri hægt að kenna einhverri opinberri stofnun um að leyfisumsóknir féllu öfugum megin hryggjar.

Ég vildi gera kröfu um að þingmenn tækju þessa ákvörðun með galopin augun, að menn vissu hvaða áhrif þetta hefði á hvert svæði fyrir sig, að það væri öllum ljóst og að menn tækju ákvarðanir út frá því.

Staðreyndin er sú að sú lína sem nú er dregin, miðað við niðurstöðu nefndarinnar, kemur sérstaklega illa niður á einu tilteknu svæði, sunnanverðum Vestfjörðum. Þær upplýsingar komu ekki fram í gegnum nefndina. (Forseti hringir.) Menn þurftu að rýna í þau takmörkuðu gögn sem lögð voru fram. Ég held að það sé bara kostur að öllum sé ljóst á hvaða svæði mestu áhrifin verða miðað við þennan skurðpunkt.