149. löggjafarþing — 126. fundur,  19. júní 2019.

menntun, hæfni og ráðning kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla.

801. mál
[21:19]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Hæstv. forseti. Þetta er fyrir margra hluta sakir áhugavert mál sem rætt er hér, það mál sem við höfum rætt um sem eitt leyfisbréf. Hugsunin eða pælingin á bak við það er góð að mínu mati, að auka sveigjanleika og möguleika í starfi kennara, hvort sem það er á leik-, grunn- eða framhaldsskólastigi. Verið er að halda áfram þeirri hugsun sem þverpólitísk samstaða hefur verið um að auka starfsöryggi og fjölbreytni í starfsumhverfi kennara, möguleika þeirra á að fara á milli skólastiga en um leið að nota það í þeim tilgangi að efla og styrkja kerfið og gera það fjölbreyttara þannig að hægt sé að mæta ólíkum þörfum allra þeirra ólíku einstaklinga sem eru innan skólakerfisins. Og við erum alltaf að taka, að mínu mati, hverju sinni jákvæð skref fram á við í þá átt.

Lenging kennaranáms hefur verið umdeild. Ég er enn þeirrar skoðunar að það hafi verið rétt skref, sannfærð um að það hafi verið rétt skref að lengja kennaranámið. Margir segja að umsóknum í kennaranámið hafi fækkað eftir að það var lengt. Það er ekki rétt, umsóknum var þegar byrjað að fækka á árunum 2003–2004. Ákveðin þróun var alveg til ársins 2010 í kennaranám sem var kannski ekki nægilega jákvæð. Lenging kennaranámsins var fyrst og fremst sett fram í tengslum við heildstæða endurskoðun á skólalöggjöfinni í leik-, grunn- og framhaldsskóla, og kröfum sem við settum fram á sínum tíma og, eins og ég segi, þverpólitísk samstaða var um lengingu kennaranámsins í fimm ár. Mikið var talað um Finnland og markvisst litið til Finnlands varðandi kennaranámið og líka unnið í mikilli samstöðu við alla kennarastéttina, leik-, grunn- og framhaldsskóla. Það skiptir gríðarlega miklu máli að hafa það í huga að það var ekki sjálfgefið, en það skiptir máli að að þeirri breytingu var unnið í samstöðu við kennarastéttina og fyrirmynda var m.a. leitað til Finnlands.

Ég hef hins vegar gagnrýnt það einu sinni, tvisvar og oftar úr þessum ræðustól að eftir gildistöku laganna og síðan má kannski segja eftir hrun hafi útfærslunni á kennaranáminu ekki verið fylgt nægilega eftir. Útfærslan ein og sér átti ekki að vera þannig að það væri eingöngu lenging á kennslufræðinni sem slíkri heldur átti að fara í það að auka starfskennslu, vinnu á vettvangi, en það var ekki gert nægilega markvisst. Því vil ég fagna að verið er að vinna að því í dag. Ef ég hef skilið hæstv. ráðherra rétt erum við ekki að hvika frá þeirri kröfu, en erum að gera það í rauninni eins og vilji löggjafans á sínum tíma var, að víkka það út, annars vegar að efla fagþekkingu og kennslufræði en hins vegar að fara líka út í það að auka reynslu á vettvangi og fara þá einnig í markvissara samstarf við sveitarfélögin sem m.a. bera ábyrgð á leik- og grunnskólastiginu og gera það sama síðan við framhaldsskólastigið.

Þetta er svona það sem mér finnst mikilvægt að halda til haga, að við sýnum að við gerum ekki minni kröfur til kennara og menntunar kennara en til annarra mikilvægra starfa sem við leggjum áherslu á í íslensku samfélagi. Þetta er lykilstaða fyrir íslenskt samfélag og framþróun þess til að afla ákveðinna tækifæra og gera börnin okkar og samfélagið í stakk búið til að takast á við fjölbreytta framtíð sem bíður okkar og verður að vera þannig. Það þýðir að við þurfum að hafa öfluga kennara, sem við höfum, eins og lýst hefur verið og ég sé hv. þm. Guðmund Andra Thorsson sem hélt einmitt fína ræðu um hvernig við sjáum kennarana, hvaða eiginleika þeir eiga að hafa og við getum blessunarlega horft upp á það dagsdaglega, við sem eigum börn sem hafa farið í gegnum öll skólastig.

Mikilvægt er að sjá þennan sveigjanleika á milli, gera kerfið þannig að það verði sveigjanlegt en ekki slaka á kröfum, að við höfum ákveðinn metnað og ákveðna sýn til skemmri sem lengri tíma. Og hægt er að hjálpast að með margt. Ég tel til að mynda að breytingar á lánasjóðskerfinu sem stefnt er að séu til bóta.

Það sem ég staldra hins vegar við núna er að ég tel að í fyrsta lagi sé hægt að ná þessu fram undir núverandi fyrirkomulagi og láta reyna á þennan sveigjanleika sem nú er til staðar í löggjöf, til að mynda að framhaldsskólakennarar eða grunnskólakennarar geti farið á milli.

Það er alveg ljóst að skiptar skoðanir eru innan Kennarasambandsins. Leik- og grunnskólakennarar vilja þessa breytingu en framhaldsskólakennarar hafa varann á sér. Það er skiljanlegt. Ég skynja það þannig að þó að þetta mál hafi verið vel unnið af hálfu nefndarinnar verði bara betra að gefa því örlítið meiri tíma. Þó er tillaga hv. þm. Þórarins Inga Péturssonar allrar athygli verð. Ég held að þar sé einmitt verið að reyna að nálgast þessi sjónarmið með því að framlengja og ég held að hún yrði a.m.k. til bóta, en varðandi öll þau mál sem hafa verið erfið eða umdeild þvert á flokka í gegnum tíðina — ef þau hafa fengið aðeins meiri tíma til að gerjast og þroskast, veita meira svigrúm til þess og tækifæri til að tala saman við viðkomandi hagaðila, kerfið líka sem slíkt, hvort sem það er Menntamálastofnun eða menntamálaráðuneyti, þá hafa þau alltaf batnað. Ég man ekki eftir neinu máli sem hefur verið sett í bið, flutt aftur og síðan samþykkt, hafi versnað við það. Í fljótu bragði man ég ekki eftir því að mál hafi versnað við það að verða síðan samþykkt á næsta þingi.

Mér finnst vera svo mikið undir. Það er svo mikið undir að við náum breytingum í sem mestri sátt. Ég tala af ágætri reynslu þar, ég vona að ég hljómi ekki stútfull af hroka, en ég rak mig á að fara af stað með ákveðnar breytingar í ekki nægilega miklu samráði við kennaraforystuna og ýmsa aðra. Það var ágætt að staldra aðeins við og ná m.a. tíu punkta eða skrefa samkomulaginu á sínum tíma sem hafði mikla þýðingu fyrir alla vinnu síðar varðandi heildstæða löggjöf í skólunum, kennaramenntunina og margt fleira má telja. Í mestu vinsemd tel ég betra fyrir þessa mikilvægu hugsun sem er undirliggjandi í frumvarpinu, og ég tek undir, varðandi sveigjanleika í námi og möguleika kennara, að gefa málinu meiri tíma. Ég veit að hæstv. menntamálaráðherra myndi gera allt til þess að ná enn ríkari og meiri samstöðu og ég undirstrika að ég er sannfærð um að málið myndi ekki versna. Það er þess virði að láta á það reyna og mér hugnast heldur ekki miðað við þá tóna — ég segi eins og hv. þm. Andrés Ingi Jónsson sagði, ég er ekki einu sinni með þær vonir og væntingar að hægt sé að ná samstöðu um öll mál. Það er ekki þannig og ekki heldur í þessu, en það er hægt að ná meiri samstöðu en nú er. Það fer ekki allt alveg mótatkvæðalaust hér í gegn.

Ég velti fyrir mér, ef það er rétt sem maður heyrir og skynjar innan kennarastéttarinnar að kennarastéttin verði sundruð, hugsanlega að kennarasamtökin tvístrist, þá spyr ég, af því að við erum að afgreiða þetta núna með þessum hætti: Fyrir hverja er það til hagsbóta? Er það til hagsbóta fyrir skólakerfið eða fyrir kennarastéttina sem slíka að hafa ekki látið reyna á enn meiri samstöðu? Fyrir hverja er sundruð kennarastétt til hagsbóta? Hún er ekki til hagsbóta fyrir skólakerfið sem slíkt, skólana, nemendur sem vita að þeir fara í leikskóla, grunnskóla og langflestir í framhaldsskóla. Það þarf að vera fallegt samtal þarna á milli. Þrátt fyrir ákveðinn ágreining verður að vera teygja og sveigjanleiki þar á milli og samtalsbið líka þannig að ég velti fyrir mér fyrir hverja sundruð kennarastétt er. Hún er kannski best fyrir pólitíkusa, kannski best fyrir menntamálaráðherra og stjórnendur hverju sinni að taka hverja stétt fyrir sig, það er kannski betra en að taka stéttina heildstæða, en mér hugnast ekki sú sýn.

Þess vegna segi ég enn og aftur í mestu vinsemd að þetta er mál sem ég tel að hægt verði að vinna betur í sumar og strax á haustdögum og vinna síðan á næsta þingi. Við í Viðreisn höfum sýnt að við höfum nálgast svona snúin mál málefnalega. Við erum lausnamiðuð, við erum ekki að gera það til að tefja málið, við erum að setja þetta fram, eða ég fyrir mína parta, til að það náist meiri samfella í nálgun og samstaða í þessu áhugaverða máli sem snertir eitt leyfisbréf.

Fleira var það kannski ekki af minni hálfu en ég vona að sagan hjálpi okkur til að skilja þessa nálgun mína. Ég held að það sé þess virði að láta á það reyna að fara í eina yfirferð í viðbót, þó að ég undirstriki að nefndin hefur unnið þetta vel, ráðuneytið, ekki spurning, og líka tillaga hv. þm. Þórarins Inga Péturssonar varðandi breytingu á þessu. Mér finnst þetta meira en umhugsunar virði og hvet ráðherra og þingið til að huga betur að þessu. Einnig er vert að draga fram að þetta er eitt af þeim málum sem við í hinni ábyrgu stjórnarandstöðu drógum fram og sögðum: Þetta getur orðið snúið. Þetta getur valdið ákveðnum núningi á síðustu metrum. Þetta mál er nokkuð umdeilt en á móti kemur að það var alveg skýrt af hálfu forystufólks ríkisstjórnarflokkanna, forsætisráðherra, formanns Framsóknarflokksins og formanns Sjálfstæðisflokksins, að menn lögðu áherslu á að fá þetta afgreitt. Ég skil alveg að menn vilji fá málin afgreidd en þetta er mál sem ég tel að geti orðið enn þá betra með aðeins meiri yfirlegu og umfjöllun.