149. löggjafarþing — 126. fundur,  19. júní 2019.

mannanöfn.

9. mál
[23:17]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég vil taka skýrt fram aftur að dæmin sem ég tók voru ekki tekin til að gagnrýna í sjálfu sér eða leggja eitthvert mat eða dóm á þau nöfn sem ýmist var hafnað eða sem voru viðurkennd af mannanafnanefnd. Ég er alveg sammála hv. þm. Birgi Ármannssyni og minn lærdómur af því er sá að það að ætla að setja stífar reglur og stífan ramma eða lausan ramma um það hvað má heita eða hvað ekki leiðir okkur nefnilega nákvæmlega í þær ógöngur sem menn eru nú í með mannanafnalögin. Þess vegna held ég að einhvers konar smáskammtalækningar í því að gefa frelsi á þessu sviði muni alltaf leiða okkur aftur í þessar sömu ógöngur.

Það sem mér finnst vera aðalatriði þessa máls er að við horfumst einfaldlega í augu við það að nútímasamfélag, frjálslynt samfélag, setur ekki nafngiftum skorður. Ég er 100% viss um að í langflestum tilvikum verða nöfn nafnberum til sóma og þeim sem veita nöfnin eða taka þau. Stundum verða þau svolítið skrýtin að manni finnst, svo venjast þau. (Forseti hringir.) Ég tel engar líkur á því að svona frjálsræði muni leiða til þess að menn fari unnvörpum að skíra eða nefna börn sín eða sjálfa sig einhverjum algerum ónefnum. Ég held að þetta sé algjörlega ástæðulaus ótti.