149. löggjafarþing — 126. fundur,  19. júní 2019.

mannanöfn.

9. mál
[23:19]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Frú forseti. Ég ætla ekki að draga þessa umræðu mikið á langinn. Hún hefur verið ítarleg og góð og hefur verið gerð mjög skilmerkileg og góð grein fyrir helstu álitaefnum. Ég ætla ekki að endurtaka það hér. Ég hef tekið þátt í vinnu í allsherjar- og menntamálanefnd við þetta mál og lagt mig fram við að leita lausna á vandamálum sem upp hafa komið. Ég tel að í núverandi búningi sé þetta gott frumvarp og ég styð það heils hugar.

Daglega eða nánast vikulega er einhver umræða um skrýtin nöfn sem má heita og skrýtin nöfn sem má ekki heita og af hverju megi heita þessu nafni og þessu. Það verður inntak umræðu um mannanöfn og nánast bara inntak umræðu um íslenskt mál, þ.e. einkennileg nöfn og einhver mörk. Það er alltaf verið að reyna á einhver mörk hjá einhverri opinberri nefnd og þjóðin bíður svo í ofvæni eftir því hvort nefndin muni leyfa þetta nafn eða banna þetta nafn. Svo skilur aldrei neinn neitt í neinu þegar úrskurðirnir koma.

Nýjasta dæmi um þetta er sem sé þegar kona að nafni Elín Eddudóttir vildi fá að heita Kona. Ég rifja þetta upp í tilefni dagsins því að í dag er 19. júní. Hún fékk synjun. Elín Eddudóttir fékk synjun á því að taka sér nafnið Kona, Elín Kona Eddudóttir. Þá var það nú að sá ástsæli Baggalútur og skáldmæringur, Bragi Valdimar Skúlason, fór á Íslendingabók og gáði að því hvort einhverjir hefðu fengið að heita Kona á Íslandi, hvort nafnið Kona kæmi fyrir einhvers staðar í Íslendingabók. Og jú, viti menn, svo reyndist vera. Einn karl fannst við þessa leit, Hákon „kona“ Jónsson, fæddur 1750. Þetta rifja ég upp í tilefni af kvenréttindadeginum. Kannski er ástæða til þess, bara í ljósi þessa, að íhuga hvort ekki sé orðið tímabært að fara að breyta þessum lögum vegna þess að mannanafnanefnd er — ég tek heils hugar undir það sem hv. þm. Jón Steindór Valdimarsson segir um það góða fólk sem skipar þá nefnd, vinnur sín störf af fullum heilindum og reynir að gera það eins vel og kostur er. Ég vil alls ekki gera lítið úr starfi þess fólks en mannanafnanefnd er engu að síður barn síns tíma. Þetta er nefnd sem ber vitni um mjög einsleitt samfélag þar sem er frekar fátt fólk og reglur eru skýrar. Litið er svo á að best sé að ráðið sé fram úr málum að bestu manna yfirsýn, sumir hafi bara meira vit á vissum hlutum og eigi að skera úr um það sem öllum er fyrir bestu. Litið er svo á að samfélagið eigi að hafa meiri hönd í bagga með því hvernig fólk hagar sínu daglega lífi, t.d. hvað fólk heitir, að það sé samfélagslegt verkefni að finna hvernig því verði best fyrir komið.

Mannanafnanefnd var ekki að störfum árið 1750 þegar Hákon „kona“ Jónsson var á dögum. Mér finnst mannanafnanefnd og þetta úrræði vera afurð haftatímanna. Þetta er skömmtunarhugsunarháttur. Það er einhvern veginn eins og nöfn séu takmörkuð auðlind sem þarf nefnd bestu manna sem sjá um útdeilingu úr þeim takmarkaða sjóði sem við höfum hérna sem eru íslensk mannanöfn og þeir passa upp á það, þessir bestu og vísustu menn, hvaða nöfn komast inn á mannanafnaskrána sem hefur að geyma þau nöfn sem má heita. Það er t.d. passað mjög vel upp á að nafn eins og Sukki komist ekki inn á slíka skrá. Þetta nafn kom upp í umræðum í nefndinni og ég hef fyrir satt að hér sé ekki vísað til óhóflegrar áfengisneyslu heldur sé nafnið komið til öðruvísi.

Nafnið sem við berum er einhvers konar persónulegt kennimark okkar. Góður maður sagði að nafnið sem við berum, nafnið sem okkur er gefið, af foreldrum okkar oftast nær, sé eins og forsíðan í lífsbók okkar. Það er erfitt að hugsa sér vandasamara verkefni en það að gefa barni sínu nafn. Ein stærsta ákvörðun sem fólk getur tekið í lífinu er sú að gefa börnum sínum nöfn. Slíka ákvörðun tekur fólk ekki alla jafna af léttúð. Þetta er djúp, persónuleg ákvörðun sem það tekur. Foreldrar, sé um tvo foreldra að ræða, koma sér yfirleitt saman um nafn og oft eftir langar og jafnvel erfiðar samningaviðræður um það. Það er alls ekki gott að nafngiftir séu einkum hugsaðar til að reyna á þolrifin í mannanafnanefnd. Það er ekki vænlegt í lífi barns og það er ekki góð forsíða á lífssögu barns að nafnið sé fyrst og fremst hugsað til að reyna á mörkin hjá mannanafnanefnd og komast inn á mannanafnaskrá og gá hvort mannanafnanefnd muni banna þetta nafn og bíða svo spenntur eftir því. Það er ekki gott.

En ég held að núverandi fyrirkomulag ýti undir þennan hugsunarhátt hjá fólki sem á annað borð er dálítið gefið fyrir að láta reyna á mörk. Ég held að frjálsræði í þessum efnum sé einmitt til þess fallið að fólk hætti að hugsa svona mikið um skrýtin nöfn, hætti að reyna að finna sem afkáralegust, skrýtnust, einkennilegust, sjaldgæfust eða frumlegast nöfn á börnin sín og reyni að finna nafn sem hæfi vel því barni sem það á í vændum að hjálpa við að vaxa og dafna.

Ég held að ekki sé hægt að standa vörð um íslenska tungu með lagasetningum um mannanöfn. Ég held að löggjafinn geti vissulega gert ýmislegt til að styrkja íslenska tungu og auka veg hennar eins og dæmin sanna og eins og hæstv. menntamálaráðherra er í óðaönn að reyna að gera um þessar mundir. Það þarf að ýta undir notkun íslenskunnar í daglegu lífi og nota hana, en ég held að það sé ekki vænlegt að hún verði ræktuð með úrskurðum ýmiss konar ráða eða nefnda.

Ég held að ég hafi þetta ekki lengra en vísa enn og aftur til ágætra ræðna hjá hv. þingmönnum Jóni Steindóri Valdimarssyni og Helga Hrafni Gunnarssyni og ég vonast til þess að þingheimur muni samþykkja þetta mál.