149. löggjafarþing — 126. fundur,  19. júní 2019.

mannanöfn.

9. mál
[23:30]
Horfa

Jarþrúður Ásmundsdóttir (V):

Frú forseti. Frumvarp um nýja löggjöf um mannanöfn er mikilvæg breyting í átt að auknu frjálsræði. Það er löngu kominn tími til að snúa frá þeirri forræðishyggju sem ríkt hefur á undanförnum áratugum í gegnum núgildandi lög. Í þeim kristallast vel togstreita á milli frelsis og forræðishyggju.

Í gegnum aldir hefur íslensk nafnahefð þróast í takt við íslenskt mál og enn í dag gefa flestir foreldrar börnum sínum nöfn í samræmi við þá nafnahefð, enda höfum við staðið vörð um þessa hefð sjálf. Það var svo fyrir rúmri öld að mönnum hugkvæmdist að setja lög um málið og koma böndum á frelsi manna í þessum efnum. Rétt er þó að halda til haga þeirri staðreynd að tungumálið er í stöðugri þróun og ekkert ætti að vera því til fyrirstöðu að nafnahefðin þróaðist samfara breytingum á því.

Núgildandi lög um mannanöfn taka einkum mið af tveimur sjónarmiðum sem miða ekki síst að því að hafa vit fyrir foreldrum, annars vegar að foreldrum sé ekki treystandi til að taka ákvörðun um nöfn barna sinna og að koma verði í veg fyrir að þeim séu gefin nöfn sem gætu verið þeim til ama. Hins vegar að nöfn verði að lúta íslenskri málhefð. Það skýtur skökku við að foreldrum sé ekki treyst fyrir að gefa börnum sínum nafn en sé samt sem áður treyst til að taka allar aðrar meiri háttar ákvarðanir um líf þeirra og velferð.

Þetta mál er núna lagt fram í þriðja sinn á stuttum tíma og ekki að ástæðulausu því að það er löngu tímabært að breyta þessari forneskjulegum mannanafnalöggjöf. Mál þetta var lagt fram á 148. þingi en náði ekki fram að ganga þá og er nú lagt fram að nýju með breytingum sem taka tillit til athugasemda sem bárust allsherjar- og menntamálanefnd.

Nýtt frumvarp um mannanöfn felur í sér jákvæðar breytingar. Þær stærstu eru að ekki verði lengur gerður greinarmunur á eigin- og millinafni. Þá verði ekki lengur skylda að kynbinda kenninöfn foreldra. Þá verði fellt á brott ákvæði um ættarnöfn sem kveður á um hvaða ættarnöfn má nota og hver ekki. Þar með verði fallið frá því að skilgreindur hópur fólks njóti þeirra sérréttinda að mega bera ættarnöfn sem forfeður þeirra ákváðu sjálfir á einhverjum tímapunkti að taka upp.

Í gær voru samþykkt lög um kynrænt sjálfræði. Þau mörkuðu stór tímamót og var einstaklega ánægjulegt að fá tækifæri til að styðja þau og koma þeim í höfn. Þar með var gefið frjálst hvernig fólk skráir kyn sitt í þjóðskrá. Þau lög höfðu miklar breytingar í för með sér á mannanafnalögum. Sú róttækasta er að nöfn eru ekki lengur bundin við kyn. Nú er ekki lengur skylt að nefna stúlku stúlkunöfnum og drengi strákanöfnum, enda gefur það augaleið að þegar heimilt er að skrá kyn hlutlaust fellur um sjálft sig skilyrði um að allir verði að bera annaðhvort karlmanns- eða kvenmannsnafn. Frjáls skráning og hlutlaus skráningu kyns gerir það að verkum að nafn getur ekki lengur verið afgerandi um það hvers kyns sá er sem nafnið ber.

Nú býðst annað tækifæri til að færa réttinn til fólksins og ég trúi ekki öðru en að þeir sem studdu lögin um kynrænt sjálfræði styðji þetta góða mál líka.

Í núgildandi lögum um nafngift er ekki aðeins haft vit fyrir foreldrum heldur er verið að hamla mér að heita það sem ég vil heita — ég er annars mjög ánægð með mitt eigið nafn. Það er vel við hæfi að taka dæmi í tilefni kvenréttindadagsins 19. júní sem er í dag — hann er reyndar alveg að klárast — en á dögunum vildi kona ein heita Kona. Því var hafnað. Steininn tók svo úr þegar virkur í athugasemdum, maður að nafni Karlsson, mótmælti ósk konunnar. Hann var sem sagt sonur manns sem heitir Karl, sem er gott og viðurkennt nafn samkvæmt núgildandi lögum.

Með þessum breytingum munu allir sem náð hafa 18 ára aldri geta ráðið nafni sínu og núgildandi reglur sem takmarka hvaða og hvernig nöfn megi bera verða felldar niður. Það er mikilvægt að við látum af þeirri forræðishyggju sem nú ríkir í þessum efnum.

Ég hvet alla þingmenn til að greiða þessu nýja frumvarpi um mannanöfn atkvæði sitt og samþykkja mikilvægar breytingar í átt að auknu frelsi og snúa baki við forræðishyggju og óþarfaafskiptum.