149. löggjafarþing — 126. fundur,  20. júní 2019.

fiskeldi.

647. mál
[00:23]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Þær eru ófáar, stundirnar sem hefur verið eytt í þetta mál — margir fundir, mikill lestur, mikil kynning. Stundum hefur mig dreymt lax í kvíum og það er ekki gaman, get ég sagt ykkur.

Við erum hins vegar að stíga stórt og mikið skref og ég held að við eigum að horfa til þess hverju við erum að ná. Það er einfaldlega ekki rétt að náttúran njóti ekki vafans. Hér er verið að lögfesta, eins og komið var inn á, ráðleggingar færustu vísindamanna okkar um hvernig megi byggja upp eldi þannig að það sé í sátt við náttúruna. Það voru hertar allar skrúfur er tengjast umhverfismálum í vinnu hv. nefndar. Það er verið að tryggja betur aðkomu almennings að því að gera athugasemdir við hvernig eldissvæði verða auglýst, umsóknir fara í hefðbundið mat á umhverfisáhrifum o.s.frv. Ég held að við séum að stíga stórt skref í átt að meiri sátt um fiskeldi á Íslandi.