149. löggjafarþing — 129. fundur,  20. júní 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[14:22]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Mér finnst þetta verðugar vangaveltur vegna þess að ég met það svo, eins og hv. þingmaður í raun og veru kom inn á í ræðu sinni, að stefnumótunarferli er lærdómsferli. Við erum að máta okkur svolítið inn í þetta verklag sem er rammað inn í lög um opinber fjármál. Hv. þingmaður kom inn á að reglurnar verði markmiðunum yfirsterkari en við verðum alltaf að muna líka að við nýtum þetta sem verkfæri og töpum okkur ekki í því að þjóna einhverju gangvirki verklagsins vegna heldur nýtum verkfærið. Það er mjög mikilvægt. Þess vegna verðum við líka að virða það að þetta er ekki fullkomið.

Ég ætla að taka dæmi. Við þær aðstæður sem eru uppi og hv. þingmaður fór yfir í tengslum við endurskoðun á stefnu, þ.e. þessa snöggu niðursveiflu sem hv. þingmaður gerði ágætisgrein fyrir, horfumst við í augu við það ef við ætlum að meta árangur út frá markmiðum. Í stefnu erum við með markmið um heildarafkomu eins og lögin gera ráð fyrir. Vissulega erum við alveg í gólfi stefnunnar, í kringum 30 milljarðana út gildistímann.

Nú ber svo við að það er tekjusamdráttur í tekjukerfunum okkar. Það er alveg mælt, við fengum ágætisútreikninga á því, og þá stöndum við frammi fyrir spurningunni: Viljum við ná markmiðum í samræmi við áætlun? Nú ber að geta þess að sum af þeim verkefnum eru lögbundin í stóra tilfærslukerfinu okkur, skattpeningar okkar fara mikið til í það, og svo er fjárlagaramminn. (Forseti hringir.) Hversu skilvirk erum við? Og hvar erum við að ná árangri? Það hefði verið óskynsamlegt að draga ekki úr afgangi og halda sig við markmið áætlunar til að gefa efnahagslífinu súrefni. Eða viljum við (Forseti hringir.) vera alveg heilög og skilvirk og segja: Við ætlum að ná þessari afkomu? Ég held ekki.