149. löggjafarþing — 129. fundur,  20. júní 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[15:44]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það sé óhætt að segja að í þingflokkum í meiri hluta sé engin umræða um að hækka virðisauka í ferðaþjónustu, sem snýr að gistingu, langferðabifreiðum og slíkri þjónustu. Sá sem hér stendur barðist hart gegn því fyrir tveimur árum og ég hef ekki orðið var við að neitt af því standi til í dag, svo því sé algjörlega haldið til haga.

Það sem mér hefur þótt vanta svolítið í umræðuna enn sem komið er, ég er samt ekki búinn að heyra alveg allt sem hefur farið fram hér í dag, snýr að því sem raunverulega gerðist, af hverju við erum að endurskoða fjármálaáætlunina. Það er fall WOW air í lok mars, loðnubresturinn í byrjun árs og síðan er þriðja ástæðan í sjálfu sér Boeing 737 Max vélar Icelandair. Þetta virðist fyrst og fremst snúast um sætaframboð til landsins og frá. Í meirihlutaáliti fjárlaganefndar er komið aðeins inn á það.

Í áliti 3. minni hluta er vitnað í skrif meiri hlutans í fyrra um það sem snýr að flugrekstrinum og gefið í skyn að menn hafi ekki farið nógu varlega í málin. Í fyrra var bent á ákveðna hluti varðandi þetta. Það er erfitt að komast að kjarnanum í stuttu máli. Það er talað um að meiri hlutinn hafi áhyggjur af aukinni áhættu í ferðaþjónustu við gerð fjármálastefnu en hafi ekkert gert með þær áhyggjur. Hvernig átti að skrifa slíka hluti inn í fjármálastefnu eða fjármálaáætlun og gefa sér spádóma um að það myndi raungerast sem kannski ýmsir höfðu áhyggjur af að gæti gerst? Það sem hefur breyst í þessu þau tæpu þrjú ár sem ég hef setið í fjárlaganefnd er að öll umræða um hagræna þætti ferðaþjónustunnar hefur gjörbreyst og líka í fjármálaráðuneytinu. Menn eru að taka (Forseti hringir.) með allt öðrum hætti á hagrænum þáttum ferðaþjónustunnar fyrir efnahagslíf Íslendinga en var fyrir stuttu. Ég held (Forseti hringir.) að sú vinna sé í fullum gangi og muni halda áfram á næstu misserum.