149. löggjafarþing — 129. fundur,  20. júní 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[17:52]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S):

Herra forseti. Það er vel liðið á dag í síðari umr. um fjármálastefnu og fjármálaáætlun til næstu ára. Hv. formaður fjárlaganefndar, Willum Þór Þórsson, fór vel yfir þær aðstæður sem nefndin hafði til að vinna úr þeim tveimur þingmálum sem hér eru til umræðu. Ég ætla svo sem ekkert að fara miklu dýpra í þær forsendur sem þar voru undir heldur aðeins tæpa á helstu breytingunum sem meiri hluti hv. fjárlaganefndar vann að og kannski reyna að hafa þetta í knappara lagi því að margt hefur verið sagt sem er ágætt.

Mig langar samt til að byrja á að segja að í umræðunni í dag hefur komið fram að hæstv. fjármálaráðherra vitnaði í ágæta grein í tímaritinu Vísbendingu sem er nýkomið út sem rammar vel inn hversu góðum tökum við höfum náð á stýringu efnahagsmála þar sem ríkisfjármálin, þ.e. fjármál hins opinbera og peningamálastefnan, hafa náð að vinna saman að því að bæta lífskjör þannig að við mætum þessum mesta efnahagssamdrætti í 30 ár, að undanskildum hrunárum, við allt aðrar aðstæður en við höfum haft nokkurn tímann áður. Bæði er peningastefnan að bregðast við samdrætti með vaxtalækkun og fjármálastefna ríkisins að stíga inn til örvunar á réttum tíma í hagsveiflunni.

Þetta er mikilvægt að rifja upp af því að þetta er kjarninn í þeirri vinnu sem hv. fjárlaganefnd hafði í höndunum þegar hún ræddi fjármálastefnuna til næstu ára og breytingar á henni. Þeirri breytingartillögu sem meiri hluti hv. fjárlaganefndar leggur til er kannski best lýst með því að segja að við erum aðeins að strekkja á óvissusvigrúmi stefnunnar. Við setjum henni reyndar líka ströng skilyrði, að það sé ekki notað af því bara heldur að það sé þá eðlilegt að undangengnum þeim hagspám sem liggja undir, að við séum ekki að nota það til að ógna peningamálastefnunni. Viðreisn hefur líka lagt fram breytingartillögu við stefnuna þar sem gert er ráð fyrir talsvert meira svigrúmi, en mér fannst ekki koma skýrt fram í ágætri ræðu formanns Viðreisnar að varað væri við því að menn horfðu til þeirrar tillögu sem gæti síðan aftur virkað til þess að því vaxtalækkunarferli sem nú er hafið verði ógnað og þá værum við komin á þunna ísinn sem við höfum oft hætt okkur út á og stundum hefur farið illa.

Verkefnið sem við höfum í þessum sal er að láta sterka stöðu ríkissjóðs sem hefur verið byggð upp með niðurgreiðslu skulda, ágætum afgangi, 400 milljarða afgangi á undanförnum árum, grípa það bakslag sem núna er í efnahagslífinu, stíga hérna inn og örva á nýjan leik og gera þá þessa samþættingu peningamálastefnunnar og efnahag hins opinbera þannig virka að við fáum góða viðspyrnu sem fyrst.

Verkefni fjármálaáætlunar er aftur á móti að bregðast við 108 milljarða tekjufalli sem hefur komið fram í endurskoðaðri þjóðhagsspá. Ég ætla líka að geta þess að að þessu sinni var ítarleg umræða í hv. fjárlaganefnd um fleiri spár sem birtar hafa verið og við erum kannski í fyrsta sinn núna ekki bara að horfa til spár Hagstofunnar þó að hún sé hið lögformlega gagn sem við eigum að horfa til við okkar vinnu og undirbyggir þingmálin, heldur fórum við vandlega yfir aðrar hagspár. Við gerðum þá breytingartillögu um aukið svigrúm ríkissjóðs, ekkert síður út af því að það getur enn þá brugðið til beggja vona.

Í sjálfu sér er öruggasta leiðin að standa í þessum ræðustól og spá því að þetta verði örugglega allt saman miklu verra en búið er að spá og maður hefur mjög góðar líkur á því að hitta á það að maður spái rétt ef maður segir það. Við erum hins vegar ekki að reyna að mála myndina neitt dekkri en hún er heldur viljum vera raunsæ í því sem við erum að gera. Það er sú nálgun sem breyting á fjármálaáætlun næstu ára byggir á. Það er alltaf erfitt að spá fyrir um framtíðina og margt getur breyst og við höfum séð það breytast á stuttum tíma. Ég held að gildi þess að beita þeirri varfærni sem hér er muni skila okkur hratt áfram.

Meiri hluti fjárlaganefndar leggur fram breytingartillögur eftir vinnu sem hefur verið ítarleg og staðið í langan tíma. Vil ég nefna að til að mæta tekjusamdrættinum þarf að ráðast í ýmsar aðgerðir. Þær hafa komið vel fram í framsögu hv. formanns fjárlaganefndar hér fyrr í dag og ég ætla svo sem ekki að tíunda þær öllu meira. Þær eru samdráttur, hliðrun verkefna og nýjar tekjur. Eitt af því sem birtist í breytingartillögum okkar er frestun á framkvæmdum hjá æðstu stjórnsýslunni. Það er klassískt dæmi um það sem hægt er að grípa til þar sem er verið að undirbúa framkvæmdir við byggingu Stjórnarráðs en því er núna hliðrað til í tíma eða slegið á frest. Það er ein þeirra leiða sem við höfum til að bregðast við þessari stöðu.

Í fyrsta sinn frá því að við fórum að vinna fjármálaáætlun til fimm ára samkvæmt þeim lögum sem okkur verður mjög tíðrætt um í þessari umræðu gerum við í meiri hluta fjárlaganefndar breytingartillögur við framlagða áætlun. Hingað til hefur fjárlaganefnd nálgast verkefnið þannig að fara yfir áætlunina og beina ábendingum til ríkisstjórnar og ramma þær frekar inn í orðum en tölum. Þetta vil ég líka draga hérna fram því að ég held að þetta sé ágætt merki um að við erum að ná betri tökum á því hvernig við beitum þessu tæki. Núna er raunverulega næsta ferli í ríkisfjármálavinnunni að útbúa fjárlög. Þegar við höfum greitt atkvæði um fjármálaáætlunina í kvöld, eins og væntingar standa til, er kominn grunnurinn að fjárlagafrumvarpinu sem lagt verður fram í haust. Á því verðlagi sem fjármálaáætlunin verður afgreidd verða fjárlögin síðan mótuð með þeim breytingum og tekið tillit til þeirra breytinga sem samþykktar verða í atkvæðagreiðslu.

Heilmikið hefur verið rætt um nýsköpun og framlög til þróunarmála. Ég ætla rétt að ítreka að þrátt fyrir að stefna í nýsköpunarmálum hafi ekki enn verið að fullu unnin er lagt til að draga eilítið úr upphafsframlögunum sem hækka verulega og fresta aðeins framkvæmd þeirra. Niðurstaðan er samt sú að við erum með 37% hækkun á framlögum til nýsköpunar, rannsókna og þekkingargreina. Þetta er mikilvægt að hafa í huga í ljósi þeirrar umræðu sem hefur farið hér fram.

Eins og hv. formaður fjárlaganefndar nefndi í framsöguræðu sinni hefur verið heilmikil umræða um málefni sýslumannsembætta. Þau höfum við rætt í fjárlagagerð undanfarinna ára og eftir yfirferð fjárlaganefndar. Breytingartillaga meiri hlutans er að leggja þeim embættum til aukna fjármuni til lengri tíma til að gera fjárhagsgrundvöll þeirra sterkari. Tillaga okkar er um 150 millj. kr. varanlega hækkun á framlögum til málefnasviðsins er hýsir embætti sýslumanna. Í nefndaráliti okkar leggjum við líka til fleiri leiðir fyrir ráðherrann til að vinna með embættunum, því að þau eru vissulega misjöfn milli landsvæða, að því að gera þau sjálfbær. Í framhaldinu af því þarf við það verkefni sem nú er í gangi og fjárlaganefnd hefur verið upplýst um, um endurbætur í ríkisrekstri sem er nú unnið að á vettvangi sýslumannsembætta, að skoða tilurð og uppbyggingu þessara embætta og móta betur til hvers þau eru og þau verkefni sem þau sinna. Þar eru mikil tækifæri sem við höfum ekki unnið með enn þá og þá vinnu mætti taka miklu breiðar og horfa m.a. til ýmissa verkefna dómstóla sem hafa verið nefnd, eins og sáttameðferð ýmiss konar sem vel mætti fela þessum embættum.

Hér hefur líka verið umræða um þingsályktun sem við samþykktum í gær um aðgerðaáætlun um matvælaöryggi og landbúnað. Ég er ákaflega ánægður með það að ein af breytingartillögum meiri hluta fjárlaganefndar sem hér er lögð til felur í sér aukna fjármuni til matvælarannsókna og einnig til landbúnaðarrannsókna. Ég held að það sé ákaflega mikilvægt og sýni í raun að við meintum eitthvað með því að samþykkja þessa aðgerðaáætlun í landbúnaðarmálum í tengslum við lagabreytingar um innflutning á fersku kjöti en meginþungi okkar tillögu á þessu málefnasviði, sem heitir sjávarútvegur og fiskeldi, er breytingartillaga um fjármögnun hafrannsókna.

Meiri hluti fjárlaganefndar horfir nefnilega til þess, ekki síst þegar verður bakslag í efnahagslífinu, hver sé grunnur að efnahagslegu sjálfstæði þjóðarinnar. Hvað býr til verðmætin í samfélagi okkar? Þar er sjávarútvegurinn ein af okkar gildustu stoðum og hefur verið og verður það áfram og við bregðumst við því í meiri hlutanum eftir greiningarvinnu okkar. Við höfðum áhyggjur af rekstri Hafrannsóknastofnunar til lengri tíma. Þess vegna er ein af okkar áherslum sú að horfa til þess grunns sem byggður er upp með rannsóknum fyrir framtíð þessara atvinnuvega. Að sama skapi horfum við til ferðaþjónustunnar og leggjum til breytingar um 25 millj. kr. hækkun á fjármagni til rannsókna í ferðaþjónustu. Ég ætla aldrei að halda því fram að það sé einhver tala sem muni leiða fram þær rannsóknir sem við þurfum virkilega á að halda. Hún mætti örugglega vera miklu hærri, en við erum þó lögð af stað í þeim efnum.

Meiri hlutinn fór í talsvert miklar umræður um heilbrigðiskerfið enda er það mjög fyrirferðarmikið í fjármálum ríkisins. Við settum augað verulega á hjúkrunar- og endurhæfingarþjónustu á málefnasviði 25 og fjöllum um það í nefndaráliti okkar sem ég vísa til að öðru leyti. Við leggjum kannski tvennt til í þeim efnum, annars vegar að sú uppbygging hjúkrunarheimila sem var boðuð í framlagðri fjármálaáætlun verði endurskoðuð og að við förum dýpra í að kanna rekstur þeirra heimila sem nú er þegar búið að byggja og nýta þær fjárfestingar betur og samspil þess hins vegar við þau byggingaráform sem eru birt í fjármálaáætlun, en ekki síst að rýna alla þessa þjónustu frá upphafi til enda, bæði hvernig hún er uppbyggð og hverjir bera ábyrgð á henni. Í umræðum um þennan málaflokk, ekki síst í fjárlaganefnd, hefur ítrekað komið fram að það er mismunandi rekstrarform. Í sjálfu sér getur það verið æskilegt, en það er ábyrgðin á því rekstrarformi sem er misjöfn á milli heimila og þess eru því miður dæmi að sveitarfélög sem reka eða hafa rekstrarlega ábyrgð á hjúkrunarheimilunum bera þungar byrðar af taprekstri þeirra heimila.

Þess vegna eru þau tíðindi í nefndaráliti og tillögum meiri hluta fjárlaganefndar að við viljum nálgast málefni öldrunarþjónustu með því að ráðherra íhugi að skipa þverpólitíska nefnd sem tekur þennan málaflokk fastari tökum og líka til að leita annarra leiða, mögulega skilvirkari og ódýrari leiða, til að mæta þeirri auknu þjónustuþörf sem fylgir því að þjóðin er að eldast og við höfum á næstu árum fleiri aldraða einstaklinga sem við þurfum að geta mætt með þjónustu sem í dag er m.a. veitt á hjúkrunarheimilum og meta hvort við getum nálgast það með öðrum aðferðum en að beita dýrum stofnanaúrræðum.

Þetta er kjarninn í þeim breytingartillögum sem ég vildi taka fram á lokametrum þessarar umræðu ef hún fer að styttast, virðulegur forseti. Að öðru leyti er það hlutverk okkar við frágang á fjármálastefnu og fjármálaáætlun til lengri tíma að gæta að sterkri stöðu ríkisins og því jafnvægi sem verður að gilda við peningamálastefnu. Það hlutverk sem ríkisfjármálin hafa í nýgerðum kjarasamningum, sem hafa verið kallaðir lífskjarasamningar, og það stóra innlegg sem hið opinbera hafði á vinnumarkaði til að þeir samningar gætu orðið að veruleika — þeir eru ábyrgir og mikilvægir og við þurfum líka að gæta að því hlutverki sem við öxluðum þar. Að öllu samanlögðu held ég að við getum sagt eftir þá miklu vinnu og þann langa tíma sem við höfum haft þetta þingmál til meðferðar í fjárlaganefnd að ekki sé hægt annað en að ganga nokkuð bjartsýn fram á árið. Ýmis merki eru samt hér úti þrátt fyrir þetta tímabundna bakslag um að við getum risið hratt í íslensku efnahagslífi.