149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[11:12]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Rétt tæpir fimm mánuðir eru liðnir frá því að dreift var á Alþingi tillögu þeirri til þingsályktunar sem er hér í dag að nýju tekin til umræðu. Með þessari þingsályktunartillögu er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, sem mælir fyrir um að átta ESB-gerðir verði felldar inn í EES-samninginn. Gerðirnar sem um ræðir varða þriðja orkupakkann sem er safn ESB-gerða sem varða innri markað fyrir raforku og gas innan ESB. Þar sem lagastoð var ekki fyrir hendi fyrir framangreindum gerðum var ákvörðun nr. 93/2017 tekin af sameiginlegu EES-nefndinni með stjórnskipulegum fyrirvara af Íslands hálfu.

Með tillögunni er lagt til að Alþingi heimili ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd umrædda ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um upptöku þriðja orkupakkans í EES-samninginn á þeirri forsendu, virðulegi forseti, að engin grunnvirki yfir landamæri eru nú fyrir hendi á Íslandi sem gera mögulegt að flytja raforku milli Íslands og orkumarkaðar ESB. Ákvæði þriðja orkupakka ESB um slík grunnvirki eiga því ekki við og hafa ekki raunhæfa þýðingu hér á landi að óbreyttu.

Undirbúningur og samningaviðræður EFTA-ríkjanna innan EES við Evrópusambandið um upptöku þriðja orkupakkans í EES-samninginn stóðu í um sex ár, á árunum 2010–2016. Allan þann tíma var haft náið samráð við Alþingi, ekki einungis í samráðsferli við þingnefndir Alþingis í samræmi við reglur Alþingis um þinglega meðferð EES-mála frá 2014 og 2016, heldur gerðu utanríkisráðherrar á hverjum tíma grein fyrir málinu og stöðu þess í árlegum skýrslum utanríkisráðherra til Alþingis um utanríkis- og alþjóðamál. Málið hefur því verið til umfjöllunar og gaumgæfilegrar skoðunar í þinginu í hartnær áratug. Sá tími reyndist hins vegar ekki nægja öllum til að ljúka afgreiðslu málsins í vor og því erum við hér á stubbi stödd.

Virðulegi forseti. Það er með engu móti hægt að segja að ákvörðun sameiginlegu nefndarinnar sem fulltrúi Íslands samþykkti með stjórnskipulegum fyrirvara á fundi nefndarinnar vorið 2017 hafi átt að koma hv. Alþingi á óvart. Þvert á móti hafði fulltrúi Íslands í nefndinni til þess fullt umboð frá sjálfu Alþingi.

Í bréfi utanríkismálanefndar Alþingis til þáverandi utanríkisráðherra, dagsettu 20. september 2016, segir, með leyfi forseta:

„Nefndin bendir á að sú aðlögun sem samið hefur verið um byggir á tveggja stoða kerfi EES-samningsins og er sambærileg því sem samið er um vegna gerða um evrópskt fjármálaeftirlitskerfi, 681. mál. Í minnisblaði ráðuneytisins kom fram það álit að framsalið sem felst í þriðja raforkupakkanum rúmist innan stjórnarskrár og er þar vísað til álitsgerðar Skúla Magnússonar dósents um evrópska fjármálaeftirlitskerfið. Nefndin gerir ekki athugasemdir við það en áréttar að skiptar skoðanir eru um málið innan nefndarinnar, samanber nefndarálit um hið evrópska fjármálaeftirlitskerfi.“

Virðulegi forseti. Bréf þetta er að finna á fylgiskjali VIII með þingsályktunartillögu minni. Eins og það ber með sér var mál þetta skoðað ofan í kjölinn á Alþingi áður en þingið veitti umboð sitt til að samþykkja það í sameiginlegu nefndinni. Þessi skjöl taka af allan vafa um að við hina þinglegu meðferð málsins var fallist á sjónarmið sem fram komu í minnisblöðum utanríkisráðuneytisins um stjórnskipuleg álitaefni á árunum 2014–2016 — þegar hv. þingmenn Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Gunnar Bragi Sveinsson héldu um stjórnartaumana í forsætisráðuneytinu og utanríkisráðuneytinu. Þeir sögðu við Alþingi á þessum tíma, með leyfi forseta:

„Á meðan íslenska raforkukerfið er einangrað eiga bindandi ákvarðanir ACER ekki við hér á landi þar sem þær eiga eingöngu við um álitamál sem koma upp við flutning raforku yfir landamæri. Ef ákvörðun ACER myndi í framtíðinni snúa að Íslandi myndi virkjast tveggja stoða fyrirkomulagið þannig að ACER tæki aldrei eitt og sér ákvörðun gagnvart Íslandi.“

Þetta er niðurstaða í minnisblaði frá þáverandi utanríkisráðherra, Gunnari Braga Sveinssyni, til Alþingis og er að finna í fylgiskjali IX með tillögu þeirri sem hér er til umræðu. Ég endurtek, með leyfi forseta:

„… eiga bindandi ákvarðanir ACER ekki við hér á landi þar sem þær eiga eingöngu við um álitamál sem koma upp við flutning raforku yfir landamæri.“

Þetta lagði hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson, þáverandi utanríkisráðherra, fram á Alþingi 23. febrúar 2015.

Liðlega hálfu ári eftir að Alþingi fékk þessi skilaboð frá þáverandi hæstv. utanríkisráðherra vildi þannig til að flokksfélagi hans, þáverandi hæstv. forsætisráðherra, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, átti fund með þáverandi forsætisráðherra Bretlands, David Cameron, hér í þessu húsi hinn 28. október 2015 þar sem þeir sammæltust um að setja á laggirnar vinnuhóp sem var falið að skoða möguleika þess að leggja sæstreng milli Íslands og Bretlands.

Virðulegi forseti. Við skulum hafa það í huga að þegar David Cameron kom hingað til lands til fundar við íslenska forsætisráðherrann hafði forsætisráðherra Bretlands ekki komið til Íslands síðan Winston Churchill heilsaði upp á breska hernámsliðið hér árið 1941 og heimsótti þá m.a. þetta hús hér. Það eina markverða sem þáverandi forsætisráðherra, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, ákvað með breska kollega sínum í þessari mjög svo sögulegu heimsókn var einmitt að kanna möguleikann á því að leggja raforkusæstreng milli landanna tveggja.

Í þessu ljósi er fróðlegt að skoða nefndarálit minni hluta utanríkismálanefndar í því máli sem hér er til umræðu. Í álitinu segir, með leyfi forseta:

„Þeir sem styðja þingsályktunartillöguna hafa ítrekað sagt að reglugerð (EB) nr. 714/2009 um samtengingu landa hafi ekki raunhæfa þýðingu á meðan ekki er kominn sæstrengur til Íslands og að ákvarðanavald ACER samkvæmt reglugerð nr. 713/2009 snúi að mestu að ákvörðunum sem leiðir af þeirri stöðu sem myndast þegar komin er tenging milli landa, þ.e. sæstrengur. Það sem fylgjendur málsins loka hins vegar augunum fyrir er að með því að innleiða þessar tvær reglugerðir er verið að innleiða hugmyndafræðina, markmiðin og verkfærin sem lúta að einum sameiginlegum og samtengdum orkumarkaði á Evrópska efnahagssvæðinu. Hann er þegar samtengdur í miklum meiri hluta EES-ríkja. Í þessari nálgun felst því ótrúleg værukærð og kæruleysi.“

Minni hluti utanríkismálanefndar lýsir því þannig sem ótrúlegri værukærð og kæruleysi að Alþingi innleiði þriðja orkupakkann eins og þáverandi hæstv. utanríkisráðherra, Gunnar Bragi Sveinsson, lagði til við þingið á sínum tíma af því að möguleiki er á að hingað verði lagður sæstrengur eins og þáverandi hæstv. forsætisráðherra, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, vildi gera í samstarfi við Breta haustið 2015.

Undir nefndarálitið skrifar hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.

Virðulegi forseti. Ég vil að það komi fram að ég tek ekki undir þessa gagnrýni hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar á störf þáverandi utanríkisráðherra og þáverandi forsætisráðherra. Ég tel að málið hafi verið vel undirbúið af hálfu utanríkisráðuneytisins og annarra fagráðuneyta allar götur frá 2010 og að umfjöllun Alþingis hafi verið til fyrirmyndar, álitaefnin greind og þau metin áður en Alþingi veitti málinu brautargengi sitt. Því er viðsnúningur hv. þingmanna Miðflokksins í málinu óútskýrður og ég hygg að stjórnmálafræðin dugi ekki til þess að skýra hann. Viðsnúningurinn er í raun af því tagi að leita þarf í lögmál eðlisfræðinnar til að finna þar einhverjar skýringar.

Virðulegi forseti. Í þeirri tillögu sem fyrir þinginu liggur er tekið tillit til þeirra sjónarmiða sem fram komu við meðferð málsins í þinginu á sínum tíma en voru ekki lögð til grundvallar við afgreiðslu þess, þ.e. að vafi leiki á því að framsal samkvæmt tilteknum gerðum þriðja orkupakkans sé umfram það sem stjórnarskráin heimilar. Alþingi var á sínum tíma meðvitað um þessi sjónarmið sem einkum hafa verið sett fram af Stefáni Má Stefánssyni prófessor en lagði engu að síður sjónarmið annarra fræðimanna til grundvallar.

Við undirbúning þeirrar tillögu sem nú er til umræðu var hlustað á þá gagnrýni sem á sér málefnalegar forsendur og niðurstaðan er sú að allir fræðimenn sem að málinu koma eru nú sammála um að innleiðing þriðja orkupakkans með þeim hætti sem hér er lagt til standist fyllilega íslenska stjórnskipan. Raunar sáu þeir Stefán Már og Friðrik Árni Friðriksson Hirst sérstaka ástæðu til þess að lokinni fyrri umr. um málið í þinginu í vor og að teknu tilliti til sjónarmiða sem þar komu fram að árétta sérstaklega að enginn lögfræðilegur vafi væri um að sú leið sem var lögð til og lögð er til grundvallar í þingsályktunartillögunni væri í samræmi við stjórnarskrá.

Sömu fræðimenn sáu einnig ástæðu til þess eftir heimsókn í utanríkismálanefnd Alþingis fyrr í þessum mánuði og fyrirspurnir nefndarmanna þar að taka af öll tvímæli um að fyrirvörunum í stjórnarskrá og um forræði Íslands sé réttilega til haga haldið við framlagningu þessa máls. Það er því enginn lögfræðilegur vafi á því að innleiðing orkupakkans er í samræmi við stjórnarskrá. Fullyrðingar um annað standast ekki.

Það er heldur enginn vafi á því að enginn nema Alþingi getur tekið ákvörðun um hvort Ísland tengist öðrum löndum með lagningu sæstrengs. Fullyrðingar um annað standast enga skoðun eins og okkar helstu fræðimenn á þessu sviði hafa margítrekað bent á, nú síðast á fundum utanríkismálanefndar Alþingis fyrr í þessum mánuði. Fullyrðingar um annað standast ekki.

Virðulegi forseti. Mál þetta hefur verið til meðferðar á Alþingi í hartnær áratug. Það hefur hlotið ítarlega og vandaða umfjöllun. Tekið hefur verið tillit til málefnalegrar gagnrýni við lokafrágang þess. Allir helstu sérfræðingar okkar í stjórnskipunarrétti og Evrópurétti eru sammála um að það stangist ekki á við stjórnarskrá og feli ekki í sér neins konar skyldu til að tengjast raforkukerfi Evrópusambandsins eða annarra þjóða. (Forseti hringir.)

Virðulegi forseti. Málið er fullrætt og fyrir löngu tímabært að klára það. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)