149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[11:36]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir svarið, sem var í rauninni ekki svar.

Hvert er hið eiginlega markmið með innleiðingu orkupakkanna? Hæstv. utanríkisráðherra hefur gjarnan talað um EES-samninginn sem grundvallaratriði í þessu öllu saman. Í upphafi var það svo og var innleidd hér með þeim samningi svokölluð tveggja stoða lausn, sem hæstv. ráðherra vísaði til áðan í ræðu sinni.

Nú erum við að fara að aðskilja Orkustofnun með þriðja orkupakkanum og ég spyr: Hvaðan skyldu tilmælin koma, vinsamleg tilmæli um það hvernig hún skuli starfa? Undir hvaða stoð fellur t.d. orkustofnun Evrópu? Erum við ekki að ganga pínulítið í áttina að þriðju stoðinni með öllu þessu innleiðingarferli? Ég bið hæstv. utanríkisráðherra vinsamlega að svara mér aftur. Það þarf ekki vera langt. Hvert er eiginlegt markmið með innleiðingu allra þessara orkupakka í aðildarríkjunum og EES-löndunum?