149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[12:57]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að fá að taka aðeins þátt í þessum pælingum um þjóðaratkvæðagreiðslu af því að hv. þingmaður gerir samanburð við Brexit en kemst að allt öðrum niðurstöðum en ég. Hv. þingmaður vísar í að þá virkist greinar í EES-samningnum. Það er nákvæmlega eins og með Brexit. Þar voru greinar um hvað ætti að gera ef eitthvert ríki vildi fara út. Óvissan var akkúrat eins og hann lýsti áðan. Hún var ekki um hver yrðu næstu skref, þau voru alveg ljós í Brexit. Næstu skref í Brexit voru samningaviðræður um hvernig ætti að ganga út. Það er alveg eins og hér, næstu skref yrði virkjun á þessum greinum og svo yrði farið eftir því ferli en síðan tekur við fullkomin óvissa, alveg eins og í Brexit, um hverju það skilaði, ef yfir höfuð einhverju.

Hv. þingmaður segir að hér séu óvissuþættirnir ljósir. Veit hv. þingmaður að sameiginlega EES-nefndin myndi taka málið upp aftur og öll löndin myndu samþykkja það? Veit hv. þingmaður nákvæmlega hver yrði leiðin upp úr því? Veit hv. þingmaður hvaða áhrif þetta myndi hafa á stöðu okkar innan (Forseti hringir.) þessa orkukerfis sem við erum búin að vera hluti af síðan 1999? Veit hv. þingmaður hvaða áhrif þetta myndi hafa á stöðu okkar innan EES-samningsins? (Forseti hringir.) Veit hv. þingmaður hvaða áhrif þetta myndi hafa á stöðu Noregs innan EES-samningsins? Veit hv. þingmaður hvaða áhrif þetta myndi (Forseti hringir.) hafa á EES-samninginn og Evrópska efnahagssvæðið og okkar samband við Norðmenn og Svisslendinga þar?