149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[14:08]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Herra forseti. Hreint svar: Nei. Ég sé ekki hliðstæður í þessum efnum nema í því sem það dregur fram. Það er nefnilega ágætt að Miðflokkurinn skuli vera að draga fram þessi mál í Belgíu og Frakklandi, þau sýna að við Íslendingar höfum miklu frekar styrkt okkar eftirlitskerfi. Við erum búin að styrkja Orkustofnun og umhverfi hennar og valdheimildir, sem gerir hvað? Sem á endanum styrkir stöðu neytenda, styrkir umhverfið, samkeppnisumhverfi sem Miðflokkurinn er greinilega ekkert allt of hrifinn af, en styrkir þetta umhverfi og stöðu neytenda. Þar sé ég muninn, við erum búin að standa okkur mun betur í stykkinu og það er kannski ekki vanþörf á að eftirlitsstofnanir Evrópusambandsins séu þá aðeins að hirta þessar þjóðir. Með því að passa upp á stofnanir, eftirlitsstofnanir eins og Orkustofnun, stuðlum við að því sem ekki bara styrkir stöðu neytenda heldur til lengri tíma byggir upp skynsamlega loftslagsstefnu og umhverfisstefnu.