149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[14:26]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Nú er hann kominn með kennslubókardæmi í popúlisma. Hv. þingmaður er greinilega mjög vel að sér á ýmsum sviðum. Hann er að útskýra fyrir mér, eins og hann kallaði það, um hvað öll þessi orkustefna snýst. Það væri athyglinnar virði og hefði verið betra ef hv. þingmaður hefði kannski tekið mann í kennslustund áður en kæmi væri hingað og bullað tóma vitleysu.

Það sem ég hef verið að leggja áherslu á og mun halda áfram að gera — fyrir utan það að hv. þingmaður var svo ágætur að muna eftir því að við áttum samtal í þættinum Silfur Egils, þannig að hann vísaði í það, af því að ég nefndi það ekki í ræðu minni áðan þar sem ég talaði um fjórfrelsið og frjálst flæði vörunnar.

En hins vegar skal ég undirstrika að það er alveg hárrétt, að mig minnir, að hv. þingmaður hafi setið með mér á nefndarfundi, kannski ekki, þar sem við fengum fulltrúa frá utanríkismálanefnd sem alhæfði og staðhæfði, um leið og það snerist upp í andhverfu sína, að íslenska ríkinu væri gjörsamlega óheimilt að hamla frjálsu flæði vöru inn á Evrópumarkaðinn, innri markað Evrópu, með tilliti til EES-samningsins án þess hugsanlega að baka okkur skaðabótaskyldu. Í það minnsta getum við ekki komið í veg fyrir það að aðilar og framleiðendur vöru leiti réttar síns fyrir óvilhöllum dómstólum. Það er nokkuð ljóst.

Ég segi því enn og aftur: Sú staða sem við stöndum frammi fyrir núna og þegar verið er að tala um fjórða orkupakkann — allt í lagi, jú, jú, frábært ef það er bara grænt — en ég kæri mig ekki um að fá einhvern mæli inn á gafl hjá mér sem segir mér það að ef ég þvæ þvottinn minn í hádeginu borgi ég mörgum sinnum meira fyrir orkuna en ef ég ríf mig upp klukkan tvö um nóttina til að setja í þvottavél.