149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[15:59]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ræðuna og býð hann velkominn til umræðunnar. Það er eitt atriði sem ég hjó eftir í ræðu hæstv. ráðherra áðan sem var af svipuðum meiði og kom fram í ræðu hæstv. utanríkisráðherra í byrjun umræðunnar í dag. Þar var upptalning á meira og minna sömu fyrirtækjunum sem hæstv. utanríkisráðherra virtist vilja meina að gætu lent í vandræðum ef þriðji orkupakkinn yrði ekki samþykktur og sambærileg upptalning var í ræðu hæstv. ráðherra samgöngu- og sveitarstjórnarmála rétt áðan þar sem m.a. voru nefnd Marel, 3X, Kerecis á Ísafirði og einhver fleiri.

Mig langar bara að fá að spyrja beint um þetta: Er það skoðun hæstv. ráðherra að fyrirtæki sambærileg þessum, sem byggja megintekjustreymi sitt á útflutningi, lendi í sérstökum vandræðum verði þriðji orkupakkinn ekki innleiddur? Ég vildi bara fá þetta atriði afgreitt ef möguleiki væri á.