149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:04]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að hv. þingmaður sé hér að vitna til aðfaraorða orkupakka þrjú. Þau eru sambærileg og eru í orkupakka tvö og hafa ekkert lagalegt gildi eins og hefur komið fram hjá sérfræðingum fyrir utanríkismálanefnd. Ég held að við eigum að fara varlega í það að oftúlka þessi orð. Ég held að við hefðum betur á fyrstu árunum, þegar við vorum að innleiða EES-samninginn, farið varlegar í að opna löggjöf á Íslandi, til að mynda er varðar jarðakaup, jafnvel í orkumálunum, ekki síður í ýmsum öðrum þeim geirum sem hafa komið í bakið á okkur, eins og innflutningur á hráu kjöti. Ég held að við hefðum átt að skoða betur og vera fastari að tryggja okkar eigin hagsmuni, hefðum átt að vera grimmari við að setja fram fyrirvara.

Ég hef heyrt þingmenn Miðflokksins líkja saman hráakjötsmálinu og þessu máli. Það er fjarstæðukennt vegna þess að þar voru menn ekki með neina fyrirvara, í besta falli heimatilbúna fyrirvara setta í þessum sal sem lög og reglur en höfðu aldrei haft fyrir því að taka upp þá fyrirvara einhvers staðar annars staðar, hvað þá með yfirlýsingu frá æðsta manni, orkumálastjóranum, eða gegnum sameiginlegu EES-nefndina með bókun EFTA-ríkjanna þar. Það er bara allt annað sem við erum með í dag heldur en til að mynda í því máli. Ég held að við ættum að fara varlega í þá hugsun að við séum að ryðja úr vegi alls konar hindrunum af því að númer eitt, tvö og þrjú eigum við að verja hagsmuni okkar Íslendinga. Hagsmunir okkar Íslendinga eru yfirleitt nátengdir auðlindum landsins og það er nákvæmlega það sem ríkisstjórnin og ríkisstjórnarflokkarnir eru að gera í þessu orkupakkamáli. Við erum að passa hagsmuni Íslendinga.