149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:28]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst taka fram varðandi 102. gr. að ég tel ekki að við Íslendingar þyrftum að leita eftir pólitískum stuðningi neins staðar til að beita henni ef við teldum þörf á því. Ef við fylgdum reglum um þinglega meðferð EES-mála ættu ekki að koma upp þær aðstæður að við þyrftum að beita greininni. Ég gæti helst séð það fyrir mér í tvenns konar tilfellum, annars vegar að menn hefðu komist að þeirri niðurstöðu að í fyrri þinglegri meðferð málsins, þ.e. í samskiptum við þingið og þingnefndirnar, hafi verið gerð mistök og menn ætli að sjá að sér á einhverju síðara stigi máls og segja: Heyrðu, við misskildum málið. Þetta er einhver misskilningur og við getum ekki haldið áfram. Hins vegar hreinlega að það hafi verið kosið og þingviljinn hafi breyst. Þá kemur bara nýtt þing og segir: Fyrra þing hafði aðkomu að þessu en nú er þingviljinn breyttur. Að öðru leyti þarf engan pólitískan stuðning frá Norðmönnum, Liechtenstein eða Evrópusambandinu, við eigum þennan rétt og hann er forsenda þess að málið stenst stjórnarskrá.

Það er rétt að fræðimennirnir sem vísað er til benda á valkosti, en á móti kemur að við erum með hverja álitsgerðinni á eftir annarri þar sem því er haldið mjög sterkt fram að engin þörf sé á neinum lagalegum fyrirvara og meira að segja jafnvel þótt við tengdumst evrópska markaðnum væri framsalið sem felst í því að byggja þessa tveggja stoða lausn með tilvist ACER-stofnunarinnar ekki af því tagi að það klagaði upp á stjórnarskrána. Þegar maður horfir yfir málið í heild sinni og allar þær álitsgerðir sem fram eru komnar verð ég að segja að ég hef ekki sömu áhyggjur og hv. þingmaður af því atriði.

En hvað varðar þetta atriði? Það varðar annars vegar stjórnarskrárefnið og hins vegar eru þarna álitamál um það hvað felist efnislega í málinu. Mig langar til að velta upp spurningu: Heldur hv. þingmaður (Forseti hringir.) því fram að þessu máli fylgir raunveruleg skylda til að samþykkja raforkustreng inn á þetta net ef upp kemur krafa um það?