149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:51]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir að mæta í andsvör við mig. Ég get svarað þessari síðustu spurningu þannig, þessari myndrænu lýsingu á mögulegri uppákomu í tíð fyrrverandi forsætisráðherra, að ég hefði ekkert orðið sérstaklega hrifin af því ef hann hefði hrifsað mál af þinginu. Mér hefði hins vegar þótt brilljant ef hæstv. fyrrverandi forsætisráðherra hefði tekið eftir málinu í sinni forsætisráðherratíð og ef til vill viðrað einhverjar af þeim áhyggjum sem sliga hann núna í tengslum við þennan orkupakka og fullveldi Íslands, viðrað þær áhyggjur sínar á fyrri stigum þegar verið var að vinna að kynningu þessa máls hér og innleiðingu. Það hefði getað skipt heilmiklu og auðveldað þá vinnu sem nú á sér stað. Það hefði verið virkilega jákvætt.

Það er einfaldlega gríðarlega holur hljómur í landsföðurlegum áhyggjutón hv. þingmanns núna, hafandi verið í þeirri stöðu sem hann var þegar málið var kynnt til sögunnar. Það er ekki hægt að koma sér undan því að sú er staðan. Það getur hins vegar vel verið að þetta hafi ekki komist inn á radar fyrrverandi forsætisráðherra. Ég get ágætlega skilið það. En tengslin á milli þeirrar staðreyndar og þessarar orðræðu sem hv. þingmaður fer með núna sem formaður þess flokks sem hann stýrir eru óskiljanleg. Svo einfalt er það.