149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:49]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég hef aðeins verið að rifja það upp í dag undir umræðunni um þriðja orkupakkann af hverju ég ákvað að skipta mér af stjórnmálum í upphafi. Það eru líklega rúmlega 20 ár síðan að það voru sveitarstjórnarkosningar í heimabæ mínum, Mosfellsbæ. Ég, þá nýútskrifaður viðskiptafræðingur, gat ekki skilið hvernig væri hægt að rífast svona mikið um hver væri raunveruleg fjárhagsstaða sveitarfélagsins. Ég sem viðskiptafræðingur taldi mig geta bara lesið það út úr ársreikningi. Það er engu að síður hægt, það er hægt að lesa út úr ársreikningi en það er líka hægt að rífast um svona stöðu. Ég taldi nefnilega fyrst þegar ég ákvað að fara að skipta mér af stjórnmálum að stjórnmál væru list hins mögulega, en síðan er ég þjökuð af þroska og hef komist að því að stjórnmál geta líka verið list blekkinga, leikfléttna og samsæra.

Af hverju er ég að velta þessu fyrir mér þegar við erum að ræða þriðja orkupakkann? Það er vegna þess, virðulegur forseti, að það er með ólíkindum hve mikill tími af ræðum í dag hefur farið í að ræða það sem er ekki í orkupakka þrjú. Af hverju skyldi það nú vera? Það er auðvitað vegna þess að sá áróður sem haldið hefur verið uppi úti í samfélaginu og í þingsal snýr mikið að því sem er einmitt ekki í orkupakka þrjú þótt sumir vilji halda því fram að það beintengist.

Virðulegur forseti. Þegar ég fékk þetta verkefni inn á mitt borð, orkupakka þrjú, hafði ég ekkert miklar áhyggjur í upphafi, ég skal viðurkenna það. Af því sem ég hafði kynnt mér fannst mér ekki ástæða til að hafa verulegar áhyggjur en eftir því sem umræðan magnaðist upp lagðist maður yfir þetta verkefni og hugsaði: Ókei, hvað er þetta? Hvaða hættur eru hérna? Við í þessum sal, við sem kjörin eru af þjóðinni, eigum alltaf í einu og öllu að gæta hagsmuna þjóðarinnar.

Ég komst fljótt að því að fyrri þing höfðu ítrekað farið yfir þetta mál, bæði ráðherrar, embættismenn og þingnefndir. Alltaf hafði verið komist að þeirri niðurstöðu að sjálfsagt væri að halda áfram með málið, við hefðum fengið flestar undanþágurnar samþykktar og það væri engin ástæða til annars en að halda málinu áfram. Nú hefur málið á síðustu misserum verið rannsakað í þaula aftur. Við höfum endurtekið þau ferli sem áður voru. Við í utanríkismálanefnd höfum fundað, ég veit ekki einu sinni hversu oft. Við fengum 50 umsagnir. Auðvitað voru sumar umsagnirnar neikvæðar, flestar álitsgerðir sérfræðinga voru jákvæðar. Viðskiptaráð, Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins, Náttúrufræðistofnun, ég veit ekki einu sinni hverju ég er að gleyma, enginn af þessum aðilum mælti gegn því að haldið væri áfram. Orkan okkar kom með ítarlega umsögn, bakarameistarar og svo einstaklingar sem flestir hverjir tengjast Orkunni okkar.

Við spurðum allra þeirra spurninga sem nauðsynlegt er að spyrja í svona máli og voru fundirnir allir opnir þannig að öllum á að vera ljóst hvað þar fór fram. Niðurstaðan er sú eftir þessa miklu rannsókn að orkupakkinn stenst stjórnarskrá. Eins og hann er lagður fyrir núna hef ég ekki heyrt neinn sérfræðing mótmæla því. Innleiðing orkupakkans mun ekki hækka raforkuverð. Samþykkt orkupakkans þýðir ekki lagningu sæstrengs. Það þýðir heldur ekki að Landsvirkjun verði einkavædd og þaðan af síður þýðir orkupakki þrjú að við séum að afsala okkur yfirráðum yfir auðlind okkar.

Þá hefur farið fram mikil umræða um það hvort við kynnum að vera skaðabótaskyld myndum við einhvern tímann standa í vegi fyrir því að hér yrði lagður sæstrengur. Þeir lögfræðingar sem komu á fund nefndarinnar lýstu þessu sem annars vegar lögfræðilegum vísindaskáldskap og hins vegar lögfræðilegum loftfimleikum. En sumir hafa samt velt því upp hvort svo kunni að vera. Það er alla vega alveg ljóst af þeirri umræðu og því hvernig málið liggur fyrir að enginn þarna úti ætti að geta ímyndað sér að við hefðum ætlað okkur að leggja sæstreng. Þar af leiðandi er ekki hægt að sýna fram á einhverja skaðabótaskyldu. Það er enginn vilji í dag til að leggja sæstreng þannig að þaðan af síður getur einhver komið og ætlast til þess að geta sett í samband og orðið svo ofboðslega hissa ef hann fengi nei. Við erum að niðurnegla það hér að ákvörðun um sæstreng verður alltaf tekin í þessum sal.

Er ég hlynnt sæstreng? Við getum farið út í þá umræðu. Í dag? Nei, alls ekki. Á næstu tíu árum? Mjög ólíklegt. Einhvern tímann í framtíðinni? Ég veit það ekki, en ég hef ákveðið að treysta framtíðarstjórnmálamönnum fyrir því að taka þá ákvörðun þegar og ef hún kemur einhvern tímann hér til umfjöllunar.

Þá má líka velta fyrir sér hvort það hefði verið betra þegar við sömdum okkur inn í EES að sleppa þessum IV. viðauka svokallaða, taka orkuna út, alveg eins og við tókum sjávarauðlindina. Ég velti þessu mikið fyrir mér, sérstaklega í upphafi. Ég hugsaði: Æ, af hverju voru aðilar þarna á undan að setja orkuna inn í þennan samning? Það væri svo miklu einfaldara fyrir okkur ef það væri bara ekkert til umræðu. En ég verð reyndar að viðurkenna eftir að hafa skoðað þetta mál að ég held að það sé einmitt mikill hagur af því að hafa IV. viðaukann við EES-samninginn og að orkan sé þarna inni. Við sjáum að ýmis íslensk fyrirtæki njóta góðs af því og svo fáum við löggjöf sem bætir neytendavernd til muna, rammar það inn hvernig orkufyrirtækin þurfa að birta sínar upplýsingar, að hér sé ekki hægt að beita miklum ríkisstyrkjum ef ekki eru fyrir því góð rök o.s.frv.

Hér í salnum hefur líka verið haldið fram að það sé mikil andstaða við orkupakka þrjú. Einhver hv. þingmaður talaði um að það væru 70% þjóðarinnar. Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki orðið vör við þessa miklu andstöðu. Ég hef að sjálfsögðu orðið vör við að það séu skiptar skoðanir og aðilar hafa óskað eftir fundum við okkur, sent inn bréf og annað, en ég verð líka að viðurkenna að eftir því sem ég tek samtal við fleiri aðila um þetta mál hafa flestir komist að þeirri niðurstöðu að það sé ekkert að óttast við orkupakka þrjú og/eða fólk segir: Við ætlum að treysta ykkur sem við kusum til þess að fjalla um þetta mál.

Það eru samt vissulega aðilar sem hafa áhyggjur og þær eru að mörgu leyti skiljanlegar, sérstaklega út frá því hvernig umræðan hefur farið að snúast um eitthvað sem ekki er í þriðja orkupakkanum. Það sem ég tel þó vera það góða við þá umræðu sem skapast hefur, virðulegur forseti, er að við erum allt í einu farin að tala um hluti sem hafa kannski ekki verið nægjanlega mikið ræddir á síðustu árum. Það eru stóru spurningarnar, framtíðarauðlindastýring, hvernig orkustefnan okkar á að vera, hvað með eigendastefnu um Landsvirkjun, eignaraðildina. Þetta er allt saman risastórar spurningar og það eru mál sem við eigum að vera að ræða. Það er mjög mikilvægt og það er gott að þjóðin hefur í auknum mæli tekið þátt í þeirri umræðu sem gerir okkur í þessum sal betur undirbúin fyrir þá umræðu. Auðvitað erum við alltaf að gæta hagsmuna lands og þjóðar í einu og öllu.

Virðulegur forseti. Ég var búin að lofa að nýta ekki allan tímann minn svo að við gætum lokið þessari umræðu fljótlega í kvöld. Það er alveg ljóst að það er ekki margt ósagt í þessu máli. Ég hef litið þannig á að það væru í raun engin lögfræðileg álitaefni eftir í því. Þeim hefur öllum verið svarað á fyrri stigum. Það sem eftir stendur eru tilfinningar og örlítið skiptar skoðanir í þessum sal. Þá vil ég bara hnykkja á því að ekkert mál hefur fengið jafn mikla umræðu, þar af leiðandi jafn mikla rannsókn og aldrei hafa jafn margir aðilar skrifað umsagnir eins og um nákvæmlega þetta mál. Niðurstaða langflestra þingmanna virðist vera á þann veg að hér sé ekkert að óttast og að við þurfum að klára þetta mál. Það er enginn að flýta sér, enda höfum við tekið mjög langan tíma í að fjalla um nákvæmlega þetta mál. Nú er kominn tími til að taka ákvörðun. Nú höfum við samþykkt að greiða atkvæði um málið á mánudaginn og þá er mikilvægt að klára málið svo við getum komist í að ræða öll hin mikilvægu málin, bæði sem tengjast auðlindamálum og orkumálum en ekki síður allt hitt sem okkar bíður.