149. löggjafarþing — 131. fundur,  29. ág. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[11:08]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er áhugavert mál því að hér erum við kannski loksins að komast að kjarna innleiðingar þriðja orkupakkans hér á landi. Hann snýst ekki um eignarhald á orkufyrirtækjum, yfirráð yfir auðlindum eða sæstreng, heldur neytendavernd, samkeppni á raforkumarkaði. Það eru áhrifin sem við munum finna fyrir af þriðja orkupakkanum. Hér er fyrst og fremst verið að treysta þá stofnun sem ber þar ábyrgð, Orkustofnun, í raforkueftirliti sínu til að tryggja hagsmuni neytenda og fyrirtækja í landinu þegar kemur að virkri samkeppni á markaði.

Mig langar því að spyrja hv. þingmann: Hvað er það í þessu eftirlitsfyrirkomulagi sem truflar svo mjög hann og flokk hans þegar það er með nákvæmlega sama hætti og við eigum með fjármálamarkað, persónuvernd og fjölmarga aðra þætti hins sameiginlega innri markaðar EES-svæðisins? Með hvaða hætti ættum við þá að leysa úr fyllilega sambærilegum eftirlitsþáttum ef við ættum ekki að styðjast við sams konar fyrirkomulag? (Forseti hringir.) Hvað ætti að koma til í stað EES og þá sameiginlegra stofnana? Þyrfti ekki að semja EES-samninginn upp á nýtt ef tillögur þingmanna Miðflokksins ættu fram að ganga í þessum efnum?