149. löggjafarþing — 131. fundur,  29. ág. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[11:33]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Njáll Trausti Friðbertsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég náði ekki alveg að fylgja öllu. Ég vil hins vegar nota tækifærið hér og koma inn á það að fulltrúar Orkunnar okkar komu fyrir atvinnuveganefnd í ágúst með kynningu til okkar. Ég ætla aðeins að lesa upp úr aðfaraorðum þeirrar kynningar:

„Til að forðast allan misskilning á efni skýrslunnar má taka fram að engin meiri háttar orkuvirki hafa verið reist á Íslandi án þess að Alþingi setti sérstök lög um þá framkvæmd. Ekki er líklegt að sæstrengur frá útlöndum verði lagður og tengdur við íslenska raforkukerfið án slíkra sérlaga. Ef Alþingi kýs að árétta þessa þörf á sérlögum vegna sæstrengs með sérstakri samþykkt er ekkert við það að athuga.“

Ég les aðeins lengra:

„Líklegt er að samþykkt þriðja orkupakkans verði túlkuð svo í Brussel og víðar að Íslendingar búist við að verða fullir þátttakendur í orkusambandi Evrópu með tíð og tíma vegna veigamikilla innlendra hagsmuna. Þetta eru röng skilaboð út á við eins og fram kemur víða í skýrslunni.

Það er þokkalegur samhljómur um það meðal landsmanna að Íslendingar stjórni nýtingu auðlinda sinna sjálfir og njóti þannig ávaxtanna af því samkeppnisforskoti sem þær gefa kost á, t.d. hagstæðri og hreinni orku fyrir íslenska atvinnuvegi. Það er þokkalegur samhljómur um það meðal landsmanna.“

Ég held að við séum öll þar. Við erum á sama stað í þessu máli. Ég sagði reyndar við þá: Það er ekki bara þokkalegur samhljómur, ég held að sé mikill samhljómur meðal þjóðarinnar um að við nýtum okkar sameiginlegu auðlindir.

Ég er að lesa úr skýrslunni og það kemur fram hjá þeim:

„Ekki er líklegt að sæstrengur frá útlöndum verði lagður og tengdur við íslenska raforkukerfið án slíkra sérlaga.“

Ég er sammála því og mér finnst bara fróðlegt að þetta komi fram miðað við alla umræðuna sem við eigum í. (Forseti hringir.) Síðan getum við rætt um alþjóðlegt samstarf og aðra og það sem við erum að gera af því varðandi valdframsal og fleiri hluti. Ég tek það kannski fyrir í seinna andsvari.