149. löggjafarþing — 131. fundur,  29. ág. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[11:42]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Njáll Trausti Friðbertsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er svolítið langsótt að tengja Belgíu-málið við það sem við eigum við hér. Það eru engin líkindi í málunum. Þetta er bara röng nálgun. Við munum ráða því hvernig við leggjum okkar línur og með hvaða hætti. Við erum með skipulagsvaldið á Íslandi, reyndar sveitarfélögin og síðan eru það íslensk stjórnvöld sem ákveða þessa hluti. Þannig að fyrir mér eru engin líkindi með þessum tveimur málum, svo að því sé haldið til haga. Við höfum fullt forræði yfir því hvernig við stöndum að málum.