149. löggjafarþing — 131. fundur,  29. ág. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[12:23]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Forseti. Nú geri ég fjórðu tilraun til að fá svar við því hver afstaða hv. þm. Ólafs Ísleifssonar er til þess að breyta stjórnarskránni eins og er í ferli núna í samstarfi allra flokka undir forystu hæstv. forsætisráðherra og festa í stjórnarskrána ákvæði um náttúru Íslands og umhverfi þar sem það er verndað þannig að einhver orkupakki eða eitthvert EES-samstarf gæti ekki gengið inn á það. Við værum búin að tryggja okkar eigin náttúru í stjórnarskrá og alþjóðasamstarf myndi ekki ógna því. Er hann sammála því að annað atriði, það sem varðar auðlindir í þjóðareigu, sé sett í stjórnarskrá þannig að alþjóðasamningar gætu ekki gengið framar því? Það eru einmitt þessi tvö atriði sem fólk er hrætt við þegar kemur að orkupakkanum, umhverfisvernd og þjóðareign.

Eftir að hafa farið vel yfir málið og eftir því sem umræðan hefur þroskast hafa þeir sem eru í kringum mig — það voru margir hræddir í kringum mig — orðið minna hræddir. Sumir segja að þetta sé ekki mjög hættulegt og ef eitthvað er sé það mjög smávægilegt þó að sumir séu enn þá hræddir. Það er mismunandi.

Ef það væri búið að festa í stjórnarskrá að auðlindir þjóðarinnar væru í þjóðareign og það væri búið festa í stjórnarskrá vernd náttúrunnar væru þessi tvö atriði sem eru stóru atriðin í orkupakkanum fest í stjórnarskrá og engir orkupakkar eða EES-samstarf myndi ógna því.

Hugnast hv. þm. Ólafi Ísleifssyni það ekki? Það er í boði. Slíkt samstarf er í gangi. Það er í stjórnarsáttmálanum að klára þetta og að færa þjóðinni sjálfri málskotsréttinn, að þjóðin sjálf geti kallað mál til sín. Hugnast hv. þm. Ólafi Ísleifssyni ekki þetta? Mun hann ekki styðja að þetta verði klárað fyrir lok kjörtímabilsins? Það er í boði og er í stjórnarsáttmálanum.