149. löggjafarþing — 131. fundur,  29. ág. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[12:54]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það hefur auðvitað farið mjög mikið fyrir umræðu um sæstreng í umræðu um þetta mál og mjög mikill tími í að reyna, sem má svo gagnrýna hversu vel hefur gengið, að koma þeim upplýsingum á framfæri að þetta séu tvö aðskilin mál. Innleiðing þriðja orkupakkans eykur með engu móti líkur á sæstreng, skyldu okkar til að gera slíkt eða annað. Þess vegna hefði ég einfaldlega viljað afgreiða það mál og setja síðan á dagskrá umræðu um sæstreng, kosti og galla slíkrar framkvæmdar. Ég er alveg róleg yfir því þrátt fyrir að ekki kæmi ákvæði um að ef Alþingi samþykkti að fara í slíka framkvæmd færi það til þjóðarinnar, af því að við höfum ekki einu sinni rætt hver almennt afstaða okkar til slíkrar framkvæmdar er.

Að því leyti finnst mér formið ekki skipta öllu máli heldur líka efni máls. Í mínum huga höfum við raunverulega ekki einu sinni sett á dagskrá umræðu um sæstreng, þ.e. efnislega. Við höfum aðeins rætt hvort okkur sé skylt eða ekki að fara í slíka framkvæmd eða samþykkja hana hafi einhver áhuga á því en við höfum ekkert rætt efnislega um framkvæmdina. Við vitum ekki enn þá hvað hún myndi þýða í raun og hvað þá að við vitum vilja þings eftir mörg ár í breyttu umhverfi. (Forseti hringir.) Mér finnst við þurfa að taka þetta í réttri röð.