149. löggjafarþing — 131. fundur,  29. ág. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[13:05]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Það er áhugavert að heyra allan vafa tekinn af um hvert hið eiginlega markmið með innleiðingu orkupakkanna er: sameiginlegur innri markaður, samt sem áður ekki miðstýring. Maður áttar sig ekki alveg á því hvað sameiginlegur innri markaður þýðir í raun ef hvert ríkið af þeim 28 sem hugsanlega verða þá komin á markaðinn og plús við hin — hvort við erum þá bara hver í sínu lagi og hver með sína nálgun í orkusamskiptum inn á innri markaðinn. Þetta er eiginlega of flókið fyrir mig. Ég ætlaði nú ekki að fara að halda hér einhverja þrusuræðu í þessum efnum, maður sér hvert stefnir og heyrir hlutina.

Það sem ég vildi gjarnan tala um er akkúrat þessi fyrirvari sem er talinn vera voða fínn að því leyti til að í sambandi við þingsályktunartillöguna sem líka er hér undir, nr. 26/148, bætist við nýr töluliður, svohljóðandi:

„Ekki verður ráðist í tengingu raforkukerfis landsins við raforkukerfi annars lands í gegnum sæstreng nema að undangengnu samþykki Alþingis.“

Eins og ég nefndi hér á undan, í fyrirspurn til hæstv. iðnaðarráðherra, þá er það nú svo að ágætur þingflokksbróðir hennar, Haraldur Benediktsson, skrifaði grein í sumar og var með ákveðna tilhneigingu til þess, vildi a.m.k. reyna, að athuga hvort mögulegt væri að lægja öldurnar úti í samfélaginu og koma á pínulítilli ró gagnvart þeirri vá sem mörgum þykir felast í innleiðingu á orkupakka þrjú. Auðvitað er orkupakki þrjú þriðja skrefið af fimm sýnilegum skrefum inn á sameiginlegan innri raforkumarkað, það liggur ljóst fyrir. En staðreyndin er sú að hv. þm. Haraldur Benediktsson var með þessa hugmynd að fyrirvarinn fælist ekki einungis í því að Alþingi ætti síðasta orðið um það og tæki af skarið um það hvort hingað kæmi sæstrengur, heldur hvort ekki væri mögulegt að sá fyrirvari lægi hjá þjóðinni sjálfri og hún fengi að taka þá ákvörðun.

Skemmst er frá því að segja að slík breytingartillaga hefur legið inni hér á hv. Alþingi Íslendinga frá Flokki fólksins síðan í vor. Við fengum reyndar ekki að mæla fyrir henni, ekki var tækifæri til þess, áður en við fórum í þetta hlé. En þar segir orðrétt, breytingartillagan felur það í sér, að í stað orðanna „samþykki Alþingis“ komi: samþykki í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þetta er nákvæmlega það sem Flokkur fólksins hefur sagt frá upphafi. Okkur finnst ekkert eðlilegra en að þjóðin eigi síðasta orðið um risamál sem varða hana til framtíðar.

Ég tók eftir því að hæstv. ráðherra sagði hér á undan að hún væri ekki hlynnt því að setja alls konar mál í þjóðaratkvæðagreiðslu og að það yrði þá að vera vel afmarkað og annað slíkt. Ég kalla orkuauðlindirnar okkar ekki „alls konar mál“. Ég kalla það risamál. Ég kalla það ómetanlega auðlind sem eigi hvergi heima annars staðar en hjá þjóðinni sjálfri, það er hún sem á að taka þessa ákvörðun. Við eigum ekki að vera hér og búa til sundrung eða eitt eða neitt slíkt. Við eigum að gefa þjóðinni kost á því að kynna sér málin. Við eigum þar að ganga á undan með góðu fordæmi, þingheimur. Við eigum að vera dugleg að kynna risamálið úti í samfélaginu og ræða það við þjóðina og ræða það við fólkið okkar. Við erum nógu dugleg að fara hringinn til að safna atkvæðum í kjördæmaviku og annað slíkt. Við eigum líka að vera dugleg að kynna þetta risamál sem snertir þjóðina til framtíðar, kynna það fyrir henni kinnroðalaust og á fleygiferð. Það er þannig sem ég sé það.

Hvort sem um er að ræða EES-samninginn á sínum tíma eða aðildarumsókn að Evrópusambandinu, ef hún kemur fram, raforkumálin eða annað þá er það í öllum tilvikum þjóðarinnar, finnst Flokki fólksins, að taka ákvörðunina. Þess vegna lagði Flokkur fólksins fram breytingu á þingsályktunartillögunni hér í vor. Hún felur í sér, eins og áður er sagt, að þjóðin fái að eiga síðasta orðið um það hvort og hvenær hingað verður einhvern tíma lagður sæstrengur.