149. löggjafarþing — 131. fundur,  29. ág. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[13:11]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Bjarni Már Magnússon er prófessor í lögum og doktor í hafrétti við Háskólann í Reykjavík. Að hv. þm. Ingu Sæland viðverandi, sem hér lauk máli sínu, á fundi hjá okkur í utanríkismálanefnd sýndi hann fram á, og hefur líka gert það í greinum og viðtölum, hvernig hafréttarsáttmáli Sameinuðu þjóðanna tryggir full yfirráð, hvort sem eru línulagnir, strenglagnir eða eitthvað annað, á því sem við köllum venjulega landhelgi, hafsbotninum, 12 sjómílunum, hvers strandríkis og að enginn alþjóðasamningur, t.d. um viðskipti, orkuflutning eða hvaðeina, jafnvel með einhvers konar fjórfrelsi innan borðs, getur skákað þeim réttindum. Þar að baki liggur m.a. tilvísun í svokallaðan Vínarsamning um milliríkjasamskipti. Ég hef lítið heyrt um þetta frá andstæðingum þriðja orkupakkans og þeim sem stöðugt veifa sæstrengnum.

Nú spyr ég hv. þingmann: Hvernig rímar þetta við spádóminn um að þriðji orkupakkinn sé sammerkur lagningu sæstrengs hvað sem tautar og raular? Þau rök sem við höfum lagt fram, margs konar, um að þetta sé ekki rétt hafa ekki bitið á andstæðinga orkupakkans og ekki heldur það að nefna dæmi um það sem ég kalla þvingaðar línulagnir eða sæstrengslagnir. Þá er ég ekki að tala um EES-ríkin, ég er að tala um Evrópuríkin 28. Það er nefnilega ekki hægt að finna það.