149. löggjafarþing — 131. fundur,  29. ág. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[13:19]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Ég ætla að byrja í fyrri ræðu minni í dag á því að ræða fyrst og fremst frumvarpið um svokallað sjálfstæði Orkustofnunar sem mun ganga út á það að stofnunin heyri ekki lengur undir ráðherra, verði ekki á forræði ráðherra, og heyri ekki lengur undir íslenska kjósendur, lúti ekki lýðræðislegu valdi. Þá er þessu væntanlega stillt upp eins og þessi stofnun eigi að verða einhvers konar ríki í ríkinu. Það eitt og sér er nógu slæmt og mjög skýrt dæmi um kerfisvæðingu af verstu sort ef það á að taka tilteknar stofnanir, hverja af annarri, undan lýðræðislegu valdi. En trúa menn því í raun að þessi breyting, þetta frumvarp, snúist bara um að gera orkustofnun sjálfstæða frá kjósendum? Eru einhverjir sem raunverulega trúa því að það sé markmiðið með þessu máli sem er lagt fram sem hluti af innleiðingu þriðja orkupakkans? Ef einhverjir trúa því þá eru þeir búnir að gleypa öngulinn og sökkuna og hefðu átt að kynna sér málið betur og ættu auðvitað að gera það enn. Þetta kemur allt fram í gögnum málsins. Þetta kemur fram í reglum Evrópusambandsins. Þetta kemur fram í samþykkt sameiginlegu EES-nefndarinnar frá alræmdum fundi í júní 2016 í greinargerð nr. 93/2017. Ef þetta átti bara snúast um sjálfstæði Orkustofnunar, hvers vegna er málið þá innleitt sem hluti þriðja orkupakkans?

Hæstv. fjármálaráðherra er reyndar búinn að kveða upp úr um þetta mál, hann gerði það í gær. Hann lýsti því að þetta væri mikilvægur liður í því að uppfylla þriðja orkupakkann og með því myndum við ganga lengra í innleiðingu hans en Belgía. Belgar hefðu ekki gert nægilegar breytingar á sinni Orkustofnun til að hún uppfyllti hlutverk landsreglara, nokkurs konar útibús ACER, evrópsku orkustofnunarinnar. En það er ekki vandamál á Íslandi því að við ætlum að ganga lengra en Belgar og innleiða að fullu, verða við öllum kröfum Evrópusambandsins um virkni þriðja orkupakkans. Samt leyfa einhverjir þingmenn sér enn þá að halda því fram að þetta snúist um sjálfstæði stofnunarinnar og jafnvel neytendavernd og, eins og við heyrðum í morgun, fjármögnun stofnunarinnar.

Í fyrsta lagi er ljóst af gögnum málsins eins og ég nefndi áðan varðandi sjálfstæði stofnunarinnar að þetta snýst ekkert um það. Þetta snýst um að færa stofnunina frá lýðræðislegu íslensku valdi til erlends embættismannavalds. Í öðru lagi neytendavernd. Trúa menn því raunverulega að aukin markaðsvæðing orku á Íslandi verði til þess fallin að lækka orkuverð eða bæta neytendavernd? Ef menn trúa því, telja þeir þá ekki æskilegt að skipta upp Landsvirkjun eða a.m.k. einkavæða hana ef markaðsvæðing orkunnar er allt í einu farin að henta Íslandi sérstaklega, hér þar sem aðstæður eru gjörólíkar því sem þekkist nánast alls staðar annars staðar? Við höfum byggt hér upp, þjóðin, almenningur, ríkið, virkjanir og nýtt afrakstur þeirra til að veita íslenskum heimilum rafmagn á lægra verði en annars staðar og byggja upp atvinnulíf í landinu.

Svo er það fjármögnunin. Einhverjir hv. þingmenn hafa haldið því fram að það sé alveg ótækt að stofnunin sé rekin með halla í þeim skilningi að hún þurfi að fá framlög frá ríkinu. Bíddu nú við, er það stefna stjórnvalda að ríkisstofnanir eigi að reka sig sjálfar? Á lögreglan að reka sig með innheimtu sekta? Á Landspítalinn að reka sig með því að rukka sjúklingana? Til hvers eru skattgreiðslur? Er það ekki til að halda úti allri þeirri þjónustu og þeim stofnunum sem við þurfum að reka á Íslandi? Það er hins vegar augljóst hvers vegna á að skera Orkustofnun frá ríkinu og veita henni auknar heimildir til gjaldtöku. Það er einmitt til þess að enginn freistist til að nota fjárveitingavald ríkisins til að hafa einhverja skoðun á þessari stofnun, enda á hún ekki að heyra undir okkur Íslendinga. Hún á að heyra undir erlent vald.

En eins og svo oft í pólitískri umræðu nú til dags er notast við leiktjöld. Menn tala um neytendavernd eða faglega og sjálfstæða stofnun þegar þeir eru í rauninni að gera eitthvað allt annað, eins og birtist í gögnum málsins, hvort sem þau koma frá Evrópusambandinu, frá EFTA eða jafnvel frá ríkisstjórninni sjálfri. En þá nefna menn að þetta sé aðeins öðruvísi með orkustofnunina íslensku en landsreglarana annars staðar, vegna þess að í tilviki Orkustofnunar verði ESA milliliður. Það á á einhvern hátt að bæta málið.

En skoðum hvað felst í milligöngu ESA, í þessu sambandi sem milliliður milli Orkustofnunar og ACER. ESA verður í hlutverki nokkurs konar bréfbera, að taka við tilmælum og ábendingum frá ACER og koma þeim til skila til Orkustofnunar á Íslandi en um leið að fylgjast með því að þessu sé fylgt eftir. Að vísu getur ESA haft frumkvæði að því að senda bréf á ACER en ACER ber engin skylda til að fara eftir ábendingum ESA. ACER úrskurðar um þetta sjálft. Ef sú niðurstaða er kærð, hvert er hún þá kærð? Jú, aftur til ACER. Og hverjir úrskurða hjá ACER? Það er stofnunin sjálf. Vald ESA gagnvart þessari stofnun er því í rauninni ekki neitt. Fulltrúar ESA munu sækja einhverja fundi hérna. En það er ítrekað hvað eftir annað, sama hvað menn eru að ræða, að ESA hefur ekkert vald til þess að taka þátt í atkvæðagreiðslu, hefur ekki atkvæðisrétt.

Er það til bóta yfir höfuð að hafa ESA sem þennan millilið? Hvernig hefur ESA reynst okkur undanfarin ár? Hefur ESA alltaf verið með Íslendingum í liði eða þeim hagsmunum sem stjórnvöld hverju sinni telja vera íslenska hagsmuni? Hefur stofnunin ekki oftar verið í því hlutverki að reyna að knýja um á að við gerum meira og meira til að uppfylla kröfur ESB og um leið þá auðvitað í gegnum EES-samninginn? Og hefur ekki ESA oft og tíðum haft allt annan skilning á því en íslensk stjórnvöld, til að mynda nýverið varðandi innflutning á hráu, ófrosnu kjöti og ógerilsneyddum matvælum? Hefur ekki ESA hvað eftir annað efnt til málaferla við íslensk stjórnvöld?

Spurningin er þá þessi. Þetta hlutverk ESA sem milliliðar, skiptir það engu máli, eða er það til þess fallið að auka enn kröfurnar á Ísland miðað við það sem Evrópusambandsríkin búa við því? Þarna er aukaeftirlitsaðili til að fylgjast með því að við förum að öllu eftir þriðja orkupakkanum.

Eins og alltaf þegar verið er að ræða stór mál greinir menn auðvitað á um jafnvel það sem birtist á pappír og menn takast á um það, sérfræðingar líka, en það kemur að þeim tímapunkti að stjórnmálamenn þurfa að taka af skarið, sýna pólitíska forystu og gera það sem þeir telja raunverulega rétt. En það hjálpar óneitanlega við þær aðstæður þegar staðreyndir mála birtast, þegar raunveruleikinn sýnir mönnum hvað snýr upp og hvað niður. Það hefur gerst í málum tengdum þriðja orkupakkanum. Við höfum séð um það ýmis dæmi síðustu misserin og í sumar, til að mynda með málaferlum Evrópusambandsins við 12 Evrópuríki vegna þess að þau höfðu ekki tryggt það að nýtingarréttur færi í útboð í orkumálum. Þetta snýr m.a. að frönsku ríkisfyrirtæki og virkjun sem þetta fyrirtæki reisti fyrir löngu síðan en Evrópusambandið ætlast til þess núna í krafti þessarar nýju miðstýringar í orkumálum að þetta franska ríkisfyrirtæki eða frönsk stjórnvöld bjóði út nýtingarréttinn. Það sama á við í ólíkum myndum í þessum 12 löndum.

Hafi einhver áfram haft efasemdir eftir þetta var málið endanlega útskýrt af Evrópusambandinu sjálfu, fyrr í sumar eða fyrir réttum mánuði síðan, þegar Evrópusambandið tilkynnti að það hygðist efna til málaferla við Belgíu, eitt af stofnríkjum sambandsins, landið þar sem höfuðstöðvar ESB eru til húsa. ESB hyggst efna til málaferla við Belgíu vegna þess að Belgía hefði ekki innleitt þriðja orkupakkann með réttum hætti, sem sagt málaferli byggð á þriðja orkupakkanum. Og þau atriði sem Belgar höfðu ekki staðið sig nógu vel í, ekki innleitt rétt, eru einmitt þau atriði sem hafa kannski verið einna umdeildust í umræðu um orkupakkann hér á Íslandi og margir haft ólíkar skoðanir á og sérfræðinga m.a. greint á. En hér hefur Evrópusambandið með formlegri tilkynningu og málaferlum skilað niðurstöðu um það hvernig beri að túlka þriðja orkupakkann og kemur kannski engum á óvart að sambandið líti svo á að það beri að túlka orkupakkann eins og honum er lýst m.a. í inngangsorðum, sem einhverjir hafa látið fara í taugarnar á sér að vísað væri til þó að það sé þekkt að Evrópurétti sé mjög drifinn áfram af markmiðum en ekki aðeins beinum texta laganna.

Ég held að sé tilefni til þess, vegna þess hversu lýsandi þessi tilkynning Evrópusambandsins er, að lesa hana. Hún er ekkert mjög löng, fyrri hlutinn, því þetta er svo afdráttarlaust, þetta er svo skýrt og þetta tekur til þeirra atriða sem menn hefur greint á um hér á Íslandi. En í tilkynningu dagsettri 25. júlí sl. lýsir framkvæmdastjórn Evrópusambandsins þessu yfir, með leyfi forseta:

„Í dag ákvað framkvæmdastjórn Evrópusambandsins að stefna Belgíu fyrir Evrópudómstólnum fyrir að hafa ekki tryggt rétta innleiðingu Evrópureglna um raforkumarkaðinn (orkutilskipun 2009/72/EC) og gasmarkaðseglur (gastilskipun 2009/73/EC). Báðar reglurnar eru hluti af þriðja orkupakkanum og innihalda grundvallarákvæði fyrir rétta virkni orkumarkaða.

Belgía lögleiddi ekki með réttum hætti ákveðnar reglur um vald landsreglarans. Það á alveg sérstaklega við þá staðreynd að belgíski landsreglarinn hefur ekki fengið vald til að taka bindandi ákvarðanir um raforku- og gasverkefni en getur bara komið með tillögur til stjórnvalda um að taka slíkar ákvarðanir. Það sama á við um að skilyrði fyrir tengingu við raforku- og gaskerfi Evrópu skuli sett af belgískum stjórnvöldum fremur en landsreglaranum eins og löggjöfin gerir kröfu um.“ — Eins og þriðji orkupakkinn gerir kröfu um. — „Loks tryggja belgísk lög ekki að raforku- og gasflutningsfyrirtæki stjórni í raun öllu dreifikerfinu sem þau bera ábyrgð á. Fyrir vikið er ekki víst að þau séu í stöðu til að tryggja að fullu jafnan aðgang allra raforku- og gasframleiðenda að dreifikerfinu.“

Þetta markmið getur auðvitað haft sína kosti en það getur líka reynst hættulegt hér á Íslandi, enda hluti af áformum um markaðsvæðingu orkunnar. Stjórnvöldum er ætlað að tryggja að byggt sé upp flutningskerfi en síðan hafi allir erlendir aðilar eða innlendir, hverjir sem er, aðgang að þessu kerfi sem stjórnvöldum ber að tryggja að sé byggt upp. Það er auðvitað ekki síður áhugavert með hliðsjón af auknum áhuga á hvers konar virkjunarframkvæmdum á Íslandi og hugsanlegum sæstreng.

Þarna eru þau þrjú atriði þar sem Evrópusambandið sjálft kveður skýrt upp úr um það hvað felst í þriðja orkupakkanum. Belgísk stjórnvöld eiga ekki að taka ákvarðanir um raforku- og gasverkefni í eigin landi, þar á landsreglarinn að hafa fulla heimild til að taka bindandi ákvarðanir. Það sama á við um skilyrði fyrir tengingu við raforkukerfi Evrópu. Slík skilyrði skulu ekki sett af belgískum stjórnvöldum heldur af landsreglaranum.

Hér liggur þetta fyrir og hæstv. fjármálaráðherra og raunar utanríkisráðherra líka sögðu okkur í gær að þetta væri ástæðan fyrir því að frumvarpið um Orkustofnun þyrfti að vera hluti af innleiðingu þessa þriðja orkupakka. Við ætluðum að uppfylla ákvæðin að fullu. Við ætlum að innleiða að fullu og ekki lenda í því sama og Belgarnir sem fengu þá undarlegu flugu í höfuðið að þarlend stjórnvöld ættu eitthvað að hafa um það að segja hvernig skilyrði eru sett fyrir tengingu við evrópska raforkumarkaðinn eða um hvaða gas- og raforkuverkefni er farið í þar í landi eða með hvaða hætti.

Staðreyndirnar liggja allar fyrir í þessu máli og sumarið hefur nýst vel til að skýra þær staðreyndir og til að fá góða umræðu um málið í samfélaginu. Og svo hjálpaði Evrópusambandið svo sannarlega til þegar það með mjög afgerandi og skýrum hætti kvað upp úr um það hvað fælist í þriðja orkupakkanum, hvaða afleiðingar hann myndi hafa fyrir löndin sem innleiða.

Svo láta menn sér detta í hug að koma með einhverjar hugmyndir um að það sé allt í lagi að innleiða vegna þess að við getum ákveðið síðar í þjóðaratkvæðagreiðslu eða hér í þinginu að fylgja ekki endilega því sem við erum búin að innleiða. Það er mjög undarleg nálgun að innleiða fyrst að fullu en ætla svo að vonast til þess að innleiðingin komi ekki til framkvæmda. Hvers vegna í ósköpunum að vera að innleiða að fullu? Það heldur ekki nokkru vatni frekar en svo margt annað sem hefur verið sagt um þennan orkupakka sem enn hefur ekki verið útskýrt fyrir okkur hér í þinginu eða fyrir íslenskum kjósendum hvers vegna við þurfum að innleiða. Það hefur svo sannarlega ekki verið útskýrt hvers vegna við getum ekki nýtt þá heimild sem er í EES-samningnum til að taka af allan vafa um málið. Ætli það sé ekki bara vegna þess að menn geri sér grein fyrir því að ef ætti að taka af allan vafa fyrir sameiginlegu nefndinni þá myndi raunveruleikinn birtast enn á ný.

Í svona stóru hagsmunamáli þjóðarinnar sem varðar eina helstu auðlind hennar verðum við að ræða hlutina út frá staðreyndum, út frá raunveruleikanum sem hefur verið að gera í síauknum mæli vart við sig að undanförnu. Þegar hann blasir við þá getum við ekki leyft okkur að samþykkja innleiðingu þessa orkupakka.