149. löggjafarþing — 131. fundur,  29. ág. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[14:42]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég verð að hrósa hv. þingmanni fyrir það að í 14 mínútna ræðu tókst honum að súmmera upp allt sem hann sagði í tugum ræðna hér um miðjar nætur í vor og fram á sumar, sem segir okkur að magn er ekki alltaf það sama og gæði. (Gripið fram í.)Ég ætla að hafa þetta afskaplega einfalt því að ég nenni ekki að taka þátt í þeim loftfimleikum sem hafa verið í þessu máli þar sem staðreyndir eru togaður og skrumskældar, umræðugrundvöllur færður á einhvern ímyndaðan stað og þar þykjast menn vinna rökfræðiskylmingar. Þetta er ekki pólitík sem mér hugnast. Þetta er engum til góðs og engum til sóma.

Ég er með nokkrar einfaldar spurningar. Er hv. þingmaður á móti því að skyldur Orkustofnunar á sviði neytendaverndar og eftirlits með smásölu og heildsölumarkaði verði auknar? Spurning tvö: Er hv. þingmaður á móti því að ekki verði ráðist í tengingu raforkukerfis landsins við raforkukerfi annars lands í gegnum sæstreng nema að undangengnu samþykki Alþingis? Þriðja spurningin: Er hv. þingmaður á móti því að um tengingu raforkukerfis landsins við raforkukerfi annars lands í gegnum sæstreng fari samkvæmt stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku?

(Gripið fram í.) Þetta eru málin þrjú sem eru til umræðu í dag, þú hlýtur að þekkja þetta. (BergÓ: En ég greip ekki spurninguna.)