149. löggjafarþing — 131. fundur,  29. ág. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[14:44]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þessu hef ég aldrei lent í áður. Hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé verður að fyrirgefa mér að svara ekki fyrstu spurningunni því að ég greip hana ekki og hann vildi ekki upplýsa mig um (Gripið fram í.) í hverju hún fólst. Þingmönnum í sal er velkomið að skjóta því að mér ef þeir gripu fyrstu spurninguna.— Jú, hún rifjaðist upp fyrir mér núna, hún varðar aukið eftirlit Orkustofnunar.

Þar er ég þeirrar skoðunar almennt að fara eigi varlega í að auka á eftirlitsbatteríið í kerfinu sama hvar er, hvort sem er hjá Orkustofnun eða hvar sem það er, í samskiptum hins opinbera við fyrirtæki eða heimili. Eftirlitskerfið er allt of þurftafrekt í því samfélagi sem við búum í þannig að án þess að ég treysti mér til að fara í umræðu um þetta Orkustofnunaratriði í smáatriðum akkúrat núna er alveg ljóst í mínum huga að okkur ber skylda til þess að fara varlega í að auka í þann kostnað sem eftirlitsapparatið uppáleggur heimilum og fyrirtækjum í þessu landi. Þetta var fyrsta spurningin og afsakið hvað ég tók langan tíma í að komast að henni. Hausinn er ekki í betra standi en þetta akkúrat núna.

Númer tvö voru spurningar sem sneru að tengingu landsins við rafmagnskerfi Evrópu með sæstreng. Ég verð að viðurkenna að ég held að það hafi ekki verið óskýrt í ræðum mínum að ég tel allar líkur á að það verði raunin að einhvern tímann í framtíðinni komist sú tenging á. Sú tenging mun komast á á einhverjum tímapunkti.

Ég ætla að leyfa mér að vona, herra forseti, af því að seinna andsvar er eftir, að hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé ítreki spurninguna eða bæti alla vega ekki mörgum við svo ég geti klárað svarið við þessu.