149. löggjafarþing — 131. fundur,  29. ág. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[15:19]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni svona djúpa og góða fyrirspurn sem lýtur m.a. að guðfræði sem er sérstakt áhugamál hjá mér, það er alveg rétt hjá hv. þingmanni. Í guðfræðinni er það þannig að það er eitthvað sem heitir guðfræði náttúrunnar, þ.e. að maðurinn er í raun og veru gæslumaður náttúrunnar og að því leytinu til eigum við að fara vel með náttúruna, eins og hv. þingmaður nefndi réttilega, og nýta náttúruauðlindir skynsamlega, manninum til hagsbóta.

Það sem ég hef áhyggjur af í þessu máli, og mér finnst einkennilegt að ríkisstjórnarflokkur eins og Vinstri græn skuli ekki hafa meiri áhyggjur af því, er að málið verði upphafið að auknum virkjunarframkvæmdum í landinu, að farið verði að virkja víðar til að auka framleiðslu á orku sem síðan er þá væntanlega seld úr landi, ef og þegar sæstrengur kemur. Ég held að það sé alveg óhætt að segja að sæstrengur kemur, það er bara spurning hvenær. Þá er ég þeirrar skoðunar að sæstrengur, ef hann kemur, eigi að vera á forsendum okkar sjálfra. Við eigum ekki að undirgangast þetta regluverk vegna þess að það tekur forræði okkar frá því að geta ráðstafað sæstrengsmálum, því sem fylgir sæstreng að okkar vilja og með okkar áherslum.

Það má vissulega segja, hv. þingmaður, að það er nauðsynlegt að tryggja með einhverjum hætti að við förum ekki illa með náttúruauðlindir okkar. (Forseti hringir.) Ég styð það heils hugar og síðan er bara að útfæra hvernig það er gert.