149. löggjafarþing — 131. fundur,  29. ág. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[16:10]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Það er hárrétt að hluti af starfi okkar, og bara í lífinu almennt, er að bregðast við óvæntum uppákomum eða bregðast við því sem verður í framtíðinni. En við búum við þann lúxus í dag að við sjáum aðeins inn í framtíðina. Við sjáum hvað Evrópusambandið ætlar sér að gera þegar kemur að orkumálum. Við sjáum hver stefnan er, vitum hver stefnan er. Stefnan er einn risastór sameiginlegur orkumarkaður þar sem menn munu þurfa að deila orkunni með öðrum. Það verður stjórnun á verðlagningunni. Það verður opnað fyrir samkeppni á sama tíma. Það er fullt af hlutum sem við erum að innleiða með þessum þriðja orkupakka sem geta haft áhrif verðum við einhvern tímann dæmd til að leggja sæstreng eða ef vilji okkar stendur til þess. Það er þessi vissa, það sem við getum séð í fjórða orkupakkanum, sem við viljum gjarnan fá inn í myndina vegna þess að hann er kominn fram.

Þar af leiðandi er ákveðin, það er óhætt að segja það, geðshræring yfir málinu öllu saman, af því við viljum gjarnan geta nýtt okkur þau tækifæri að geta séð inn í framtíðina sem við getum, spáð í orkustefnu Evrópusambandsins, velt því fyrir okkur hvort við ætlum virkilega að taka hana upp, því að við erum að innleiða hluta af henni með þessum frumvörpum — orkustofnun, ACER, það allt saman.

Ég ætla að nýta tækifærið og spyrja hv. þingmann einnar spurningar. Ég veit ekki hversu mikið hún hefur kynnt sér þetta, það gerir ekkert til þó að hún hafi ekki kynnt sér þetta því að þetta hefur ekki verið mikið rætt. Ég kom aðeins inn á það í fyrra andsvari að hér hefur töluvert verið talað um að það sé engin skylda til að leggja þennan sæstreng út af landgrunninu okkar, eitthvað svoleiðis. Það hefur komið fram að Noregur fékk ekki undanþágu frá strengjunum sem liggja frá landi út í olíuborpallana. ESA komst að þeirri niðurstöðu að tilskipunin gildi um starfsemi í sérefnahagslögsögunni og landgrunni aðildarríkjanna. (Forseti hringir.) Nú veit ég ekki hvort hv. þingmaður þekkir það dæmi, hvernig við höldum á þessum landgrunnsmálum (Forseti hringir.) öllum saman. Er þetta eitthvað sem (Forseti hringir.) við þurfum ekki að hafa áhyggjur af þegar ESA hefur komist að þessari niðurstöðu, eða framkvæmdastjórnin?