149. löggjafarþing — 131. fundur,  29. ág. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[16:41]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Eins og ég fór yfir í máli mínu eru allir þessir sérfræðingar, löglærðir á ýmsum sviðum hafréttarmála, þjóðréttarmála, stjórnskipunar og þeim sem snúa að fullveldi þjóða, búnir að gefa ítarlegar umsagnir akkúrat um þessi mál sem hv. þingmaður nefndi áðan. Ég sem þingmaður hef komist að þeirri niðurstöðu fyrir mína parta að treysta því að álit þeirra sem er gefið út á þann veg, eins og ég vitnaði til áðan, sé á þá lund að þetta standist. Ég treysti því.

Hvorki hv. þingmaður né sú sem hér stendur erum löglærð og förum ekki ein og sér að leggja á það mat með þá þekkingu að baki. Til þess höfum við þá sérfræðinga sem við höfum verið að kalla til vegna þess að þetta er mikið ágreiningsmál. Menn verða að gæta ýtrustu varfærni. En auðvitað þurfa menn að lokum að taka einhverja ákvörðun á þeim forsendum hverjir séu meiri hagsmunir eða minni og hve litlar líkur eru á að hugsanlega séu þessir fyrirvarar ekki nægjanlegir. Hugsanlega ber okkur skylda til að innleiða allan orkupakkann þó að við séum ekki aðilar að raforkumarkaði Evrópu. En við höfum fengið þau svör hjá þeim sérfræðingum sem við höfum verið að leita til að þetta allt eigi að standast skoðun. Á því byggi ég niðurstöðu mína um að innleiðing á þessum þriðja orkupakka hafi sáralítil áhrif á okkur Íslendinga nema að því leyti að aukið verði sjálfstætt (Forseti hringir.) raforkueftirlit, samkeppni og það verði neytendum til góðs.