149. löggjafarþing — 131. fundur,  29. ág. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[16:54]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hélt að hv. þingmaður væri betur að sér en ég þegar kæmi að því hvernig menn reyna að verða ríkir á fyrirtækjum og framkvæmdum. En ef það er 800 milljarða fjárfesting sem skilar kannski af sér 2.000 milljörðum eða þaðan af meira þá já, menn munu ekki hika við að fara í mál gegn íslenska ríkinu til þess að koma slíku að. Þeir munu ekki hika við það ef arðurinn er þeim mun meiri. Það er alveg klárt, svo ég svari því.

Varðandi dómafordæmin viðurkenni ég það svo sem að ég man ekki hver þau eru, en ég tek hins vegar fullt mark á þeim lögmönnum sem hafa varað við þessu og það nægir mér, hv. þingmaður. Það nægir mér að margir eða nokkrir, ég ætla ekki segja margir, löglærðir menn, dómari, hæstaréttarlögmenn, vari við því að þetta kunni að skapa okkur bótaskyldu.

Þá segi ég: Skoðum þetta mál betur. Sjáum hvað framtíðin ber í skauti sér af því að við getum séð það. Hver er þróunin í þeim málum hjá Evrópusambandinu í orkupakka fjögur, svo dæmi sé tekið? Er verið að breyta þeim reglum þar áfram? Er verið að auka líkurnar á því að færa einhverjum stofnunum meiri völd? Hver er breytingin fram undan? Það er engin ástæða til að taka þetta skref núna þegar við getum gert þetta með þessum hætti.

Hv. þingmaður getur kvartaði yfir því hvernig Miðflokksmenn tala um Viðreisn en ég upplifi þennan málflutning bara nákvæmlega eins og hann kemur af kúnni, ef ég má orða það þannig. Ég verð að segja að eina froðan sem hér hefur komið fram er frá Viðreisn.