149. löggjafarþing — 131. fundur,  29. ág. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[17:04]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Ég geri ekki ráð fyrir öðru en að hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson sé ánægður með það hvernig Icesave-málin fóru öllsömul í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er nákvæmlega þannig sem ákvæðið er. Ef Alþingi ætlar að samþykkja eitthvað, rétt eins og Alþingi samþykkir lagafrumvarp, getur forseti vísað því til þjóðarinnar. Í þessu tilfelli þarf ekki einu sinni að biðja forsetann um það. Það stendur hérna, með leyfi forseta:

„Heimilt er að gera þjóðréttarsamninga sem fela í sér framsal ríkisvalds til alþjóðlegra stofnana sem Ísland á aðild að í þágu friðar og efnahagssamvinnu. Framsal ríkisvalds skal ávallt vera afturkræft. Með lögum skal afmarka nánar í hverju framsal ríkisvalds samkvæmt þjóðréttarsamningi felst.

Samþykki Alþingi fullgildingu samnings sem felur í sér framsal ríkisvalds skal ákvörðunin borin undir þjóðaratkvæði til samþykktar eða synjunar. Niðurstaða slíkrar þjóðaratkvæðagreiðslu er bindandi.“

Þetta er bara byggt inn í það. Ef Alþingi ætlar að fara að framselja ríkisvald, framselja allsherjarvald út fyrir landsteinana þá verður það að fara í bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu til samþykkis eða synjunar. Það þarf ekki forsetann til, þetta verður að fara. Er það ekki eitthvað sem þingmaðurinn er hlynntur? Þetta er einmitt í frumvarpi stjórnlagaráðs, þótt hann sé ekki hlynntur því öllu.