149. löggjafarþing — 131. fundur,  29. ág. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[18:17]
Horfa

Frsm. minni hluta atvinnuvn. (Ólafur Ísleifsson) (M):

Herra forseti. Ég ætla að leyfa mér að lýsa þeirri skoðun að þessir tveir dagar hafi verið afar gagnlegir hér á Alþingi og þá kannski ekki síst dagurinn í dag, eftir að ýmsir liðsmenn úr stjórn og stjórnarsamstöðu eins og farið er að kalla hana, eða stjórnarandstöðu B, hafa látið af fáryrðum og skútyrðum en tekið upp málefnalega umræðu sem hefur verið mjög upplýsandi og gagnleg.

Undir yfirskriftinni „Ný tíðindi“ vil ég sérstaklega geta ræðu hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra í gær þar sem hann lýsti þeirri skoðun sinni að okkur væri alls óhætt að fara þá leið að færa okkur í nyt 102. gr. EES-samningsins eins og við höfum talað fyrir hér í samræmi við aðaltillögu lögfræðilegra ráðunauta ríkisstjórnarinnar, sem oft hafa verið nefndir. Undir sjónarmið hæstv. fjármálaráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins tók í dag hæstv. iðnaðarráðherra sem jafnframt er varaformaður Sjálfstæðisflokksins. Fyrrverandi hæstv. dómsmálaráðherra, hv. þm. Sigríður Andersen, tók líka undir þetta sjónarmið hér í dag.

Ég fagna þessum orðum hæstv. ráðherra og hv. þingmanns og ég fagna því að í æðstu forystu Sjálfstæðisflokksins ríki glöggur skilningur á því að okkur sé þessi leið fær. Eftir stendur að hæstv. utanríkisráðherra hefur verið skilinn eftir einhvers staðar á eyðieyju vegna þess að hann hefur haldið hinu gagnstæða fram, og það frá fyrsta degi. Hann hélt því fram, eins og margir munu eflaust minnast, að EES-samningurinn yrði í uppnámi ef við dirfðumst að taka þetta mál upp í sameiginlegu EES-nefndinni og fara þess á leit að við yrðum undanþegin þessum umdeildu reglugerðum, 713 og 714, rétt eins og við erum undanþegin gerðum sem lúta að jarðgasi í þessum orkupakka.

Fram hefur komið hjá hæstv. ráðherrum tveimur sem ég gat um, formanni og varaformanni Sjálfstæðisflokksins, að þau teldu aðeins spurningu um það hvort þörf væri á að beita þessu ákvæði. Ég ætla að leyfa mér að segja að þegar auðlindir þjóðarinnar eiga í hlut, og hugsanlegur árekstur við stjórnarskrá og annað eftir því, er nú spurning hvort meiri þörf geti risið en einmitt við þær aðstæður sem við sjáum fram á hér og nú.

Herra forseti. Undir yfirskriftinni „Samstaða“ vil ég nefna að ég heyri ekki betur en að mikil samstaða sé hér í þinginu um nauðsyn þess að endurskoða hvernig meðferð EES-mála á vettvangi Alþingis er háttað. Það mál sem við erum að fjalla um hér hefði þurft að fá þessa umræðu og þá meðferð sem það hefur fengið, bæði í formi þeirra umsagna sem hafa komið, þeirra lögfræðilegu álitsgerða að sjálfsögðu, umfjöllunar í nefndum, áður en þessi ákvörðun í sameiginlegu nefndinni var tekin 5. maí 2017. Ég tel það fagnaðarefni að menn hafi gert sér grein fyrir því að þetta fyrirkomulag, þessi málsmeðferð, þarfnast endurskoðunar.

Undir yfirskriftinni „Raunsæi“ vil ég nefna að í raun og sanni heldur því enginn lengur fram í alvöru að þessir lagalegu fyrirvarar hafi hið minnsta gildi að þjóðarétti. Þeir fela í sér, held ég, að flestir átti sig á einhliða yfirlýsingu sem er ekki á nokkurn hátt skuldbindandi fyrir viðtakanda.

Undir yfirskriftinni „Varfærni“ vil ég segja að ég tel að mjög útbreiddur skilningur sé orðinn á því að það væri a.m.k. mjög óvarlegt að útiloka að upp gætu risið samningsbrota- og skaðabótamál ef farin yrði sú leið sem lögfræðilegir ráðunautar kalla næstbesta kostinn — og þar með lakari kostinn af þeim tveimur sem nefndir hafa verið. Ég fæ ekki séð að nokkur maður sem hafi í raun og sanni kynnt sér þær viðvaranir sem er að finna í álitsgerð hvað þetta efni varðar treysti sér til að útiloka að þessi hætta vofi yfir og myndi, ef þannig atvikaðist, geta kallað stórfelldar skaðabætur yfir ríkissjóð í samræmi við umfang þessa verkefnis og kostnað og annað af því tagi.

Undir yfirskriftinni „Mjóir þvengir“ vil ég vekja athygli á því sem fram kemur í framhaldsáliti minni hlutans, m.a. varðandi áformaða innleiðingu á reglugerð 713, og ég geri ráð fyrir að hið sama eigi við um reglugerð 714, að reglugerðin er sögð gefin út með heimild í 45. gr. raforkulaga. 45. gr. raforkulaga veitir ráðherra heimild til að setja reglur um framkvæmd raforkulaga. Hvernig á að vera hægt að túlka það sem svo að þessi reglugerðarheimild feli í sér heimild til að innleiða algerlega nýtt svið í heimi raforkunnar, sem er um alþjóðlega tengingu, samskipti við erlendar stofnanir, þar á meðal Eftirlitsstofnun EFTA og ACER, á sviði raforkumála? Ég kalla eftir því að hæstv. iðnaðarráðherra leggi fram þær lögfræðilegu álitsgerðir sem hún hlýtur að hafa aflað í þessu efni um að þessi reglugerðarheimild, sem afmarkast við framkvæmd raforkulaga, sé nægileg lagastoð undir hinni áformuðu reglugerð sem á að innleiða í íslensk lög, þessar umdeildu Evrópureglugerðir, 713 og 714.

Herra forseti. Þessi umræða er langt komin en ég verð að segja að hér á Alþingi eru margir þingmenn sem myndu falla undir það að teljast góðir og grandvarir og ábyrgir. Þetta á reyndar við um flesta, ef ekki alla þingmenn. Ég vil höfða til þeirra þingmanna sem hafa viljað nálgast þetta mál með ábyrgum hætti, og það tel ég nú að eigi við um alla þingmenn, með varúð að leiðarljósi, með varkárni gagnvart stjórnarskrá fyrir augum, með aðgætni gagnvart hugsanlegum skaðabótafjárhæðum sem fallið geta á ríkissjóð og af tillitssemi og virðingu við þann stóra hluta þjóðarinnar sem er óneitanlega mjög uggandi og fylgismönnum orkupakkans hefur ekki tekist að sannfæra. Ég höfða til þingmanna að þeir taki betri kostinn af þessum tveimur, sem er í samræmi við ráðleggingar lögfræðilegra ráðunauta ríkisstjórnarinnar, að hafna þessari þingsályktunartillögu og fara með þetta mál fyrir sameiginlegu EES-nefndina, sem enginn ber á móti að við eigum lagalegan rétt á og sem æðstu forystumenn og áhrifamenn í Sjálfstæðisflokknum hafa lýst hér á Alþingi að þeir telji færa leið.

Til vara vil ég segja við háttvirta alþingismenn: Eins og þetta mál er vaxið og meðan það eru spurningar sem eru aðkallandi og brýnar, eins og frekari greining á hugsanlegum samningsbrota- og skaðabótamálum, frekari greining á því fordæmi sem kann að vera að skapast vegna málshöfðunar Evrópusambandsins gagnvart Belgíu og fleiri slíkra þátta, líka með hliðsjón af því að fjórði orkupakkinn bíður handan við hornið, þá höfða ég til hv. þingmanna um það að til vara verði þessu máli frestað og það skoðað betur. Upplýst ákvörðun af hálfu Alþingis er auðvitað skylda Alþingis í þessu mikilvæga máli.