149. löggjafarþing — 131. fundur,  29. ág. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[19:12]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég myndi gera það, hv. þm. Ólafur Ísleifsson, ef ég teldi einhvern minnsta vafa á því að við værum með einhverjum hætti að missa tökin eða yfirráðin yfir orkuauðlindinni. Ég myndi líka gera það í öðrum málum sem varða auðlindir okkar, sem varða grundvöll samfélags okkar eins og orkan er, sjávarútvegurinn er o.s.frv. Ég hef mikið velt því fyrir mér og eins og ég sagði í ræðunni áðan sé ég enga grundvallarbreytingu með orkupakka þrjú, alla vega ekki eins og hann liggur fyrir núna. Menn fóru í gífurlegan undirbúning til að reyna að slá á áhyggjur manna, slá á það sem menn lesa á milli línanna, sem mér sýnist vera aðallesturinn hér á þingi, lestur á milli lína. Ég er vonlaus í því. Ég er svo ferkantaður að þetta verður allt að vera í texta fyrir framan mig. Ég er alveg laus við svona. Ég ekki hugmyndaríkur maður. Ég fer alla jafna ekki á flug, ekki nema undir sérstökum kringumstæðum.

Ef ég teldi minnsta vafa á því að slíkir risahagsmunir væru einhvers staðar í hættu myndi ég ekki bara vísa þessu til EES-nefndarinnar sameiginlegu heldur ég myndi segja nei og aftur nei. Ég er nefnilega mjög góður í að segja nei. En þetta mál lítur ekki þannig út, hv. þm. Ólaf Ísleifsson. En (Forseti hringir.) eins og ég sagði áður ætla ég ekki að gera lítið úr áhyggjum manna um að þetta sé einhvern veginn öðruvísi.