149. löggjafarþing — 131. fundur,  29. ág. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[19:34]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að eyða tíma mínum í að eltast við útúrsnúninga og ósannindi þingmannsins í garð annarra þingmanna, það er henni til minnkunar og engum öðrum. Ég vil athuga hvort þingmaðurinn hafi lesið frétt í Morgunblaðinu í dag frá Bretlandi af vef Financial News þar sem segir, með leyfi forseta:

„Fram kemur á fréttavef breska viðskiptablaðsins Financial News að áform félagsins Atlantic SupeConnection um að leggja sæstreng fyrir raforku frá Íslandi til Bretlands hafi þegar uppfyllt kröfur sem gerðar séu í þeim efnum samkvæmt íslenskum lögum. Fram kemur enn fremur að það sem einkum vanti sé grænt ljós frá breskum stjórnvöldum.“

Hefur þingmaðurinn verið upplýstur um að þetta sé svona og að þeir aðilar bíði bara eftir samþykki í Bretlandi?

Næsta spurning lýtur að því hvort þingmaðurinn hafi kynnt sér niðurstöðu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins gagnvart Noregi en Noregur sótti um undanþágu frá því að sæstrengirnir sem liggja frá landi út í borpallana þeirra féllu undir þriðja orkupakkann. Framkvæmdastjórnin komst að þeirri niðurstöðu að strengirnir sem liggja út í olíuborpallana falli undir þá tilskipun, jafnvel þótt þeir séu í efnahagslögsögu Noregs og á landgrunni Noregs.

Ég spyr hv. þingmann hvort það passi við staðhæfingar þeirra þingmanna sem eru fylgjandi málinu og hafa bent á hafrétt eða eitthvað slíkt því til staðfestingar? (Gripið fram í: Hafréttarsáttmálann) Hafréttarsáttmálann? Og við að það hafi verið sagt, kemur m.a. fram í greinargerð frá lögmanni, að hafréttarsáttmálinn og landgrunnið eigi ekki við þessu? Samt segir framkvæmdastjórn Evrópusambandsins að þessi gerð gildi þar og hafnar Noregi undanþágu. Getur þingmaðurinn útskýrt fyrir mér hvernig þetta kemur allt heim og saman?

Í þriðja lagi spyr ég hvort þingmaðurinn sjái muninn á svokölluðu Belgíumáli þar sem belgísk stjórnvöld eru núna undir smásjánni og því að innleiða orkupakka þrjú hér með fyrirvara sem aldrei hefur verið (Forseti hringir.) gert áður og fellur ekki undir þær samþykktir sem EES-samningurinn nær yfir um innleiðingar.