149. löggjafarþing — 131. fundur,  29. ág. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[19:40]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það hafi ekki komið fram í máli mínu áðan að það er ekki farið að vinna eftir orkupakka þrjú í Noregi þar sem við höfum ekki enn lokið afgreiðslu hans hér. Því er mjög erfitt að vísa til þess hvernig er verið að framkvæma hlutina þar. Það segir sig sjálft. (Gripið fram í.)

Ef ég fer aftur yfir í spurninguna um Belgíu þá hefur Belgía ekki styrkt valdheimildir belgíska raforkueftirlitsins þannig að það getur ekki tekið bindandi ákvarðanir gagnvart raforku- og gasfyrirtækjum heldur einungis lagt fram tillögur til stjórnvalda um að slíkar ákvarðanir verði teknar. (Gripið fram í.) Það er um það sem málið snýst. Ekkert annað.