149. löggjafarþing — 131. fundur,  29. ág. 2019.

tekjuskattur og staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur.

762. mál
[20:00]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Bryndís Haraldsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Það er með mikilli gleði sem ég stend hér upp og mæli fyrir síðasta málinu sem við munum afgreiða hér á þessu 149. þingi, sérstaklega eftir þá miklu umræðu sem skapast hefur um svokallaða orkupakka. Ég vil meina að hér sé um miklu meira spennandi, skemmtilegt og mikilvægt mál að ræða. Þetta er sem sagt nefndarálit okkar í meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt og lögum um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, þ.e. skattlagningu tekna af höfundaréttindum.

Tilefni þessa frumvarps sem fjármálaráðherra mælti fyrir síðasta vor er að í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er tekið sérstaklega fram að huga skuli að breytingum á skattlagningu á tónlist, íslensku ritmáli og fjölmiðlum. Frumvarpið fékk góða umfjöllun hjá okkur í efnahags- og viðskiptanefnd og við fengum á fund okkar ýmsa aðila, m.a. frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu, ríkisskattstjóra, Rithöfundasambandinu, Myndstefi, STEF og Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Auk þess fengum við umsagnir frá fleiri aðilum, minnisblöð frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu og ríkisskattstjóra aukalega. Alþýðusamband Íslands og fleiri sendu okkur umsagnir.

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um tekjuskatt annars vegar og lögum um staðgreiðsluskatt á fjármagnstekjum hins vegar. Í breytingunum felst að greiðslur til einstaklinga sem rétthafa höfundaréttinda frá viðurkenndum rétthafasamtökum skuli teljast til fjármagnstekna án nokkurs frádráttar og að slíkar greiðslur verði staðgreiðsluskyldar samkvæmt lögum um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur.

Það skapaðist mikil umræða um þetta í hv. efnahags- og viðskiptanefnd og meiri hlutinn var alla vega sammála því að ástæða væri til að bregðast við en við umfjöllun nefndarinnar skapaðist töluverð gagnrýni á að samkynja greiðslur yrðu skattlagðar á mismunandi hátt eftir því hvort rétthafar fengju þær greiðslur frá viðurkenndum rétthafasamtökum eða ekki. Þá komu fram sjónarmið um að slík framkvæmd myndi stangast á við grundvallarreglur um jafnræði og neikvætt félagafrelsi.

Í minnisblaði fjármála- og efnahagsráðuneytisins til nefndarinnar, eftir að við óskuðum eftir því, er gerð tillaga að breyttu orðalagi og ákvað nefndin að breyta frumvarpinu í þá veru að skilyrðið um að greiðslur komi frá viðurkenndum rétthafasamtökum verði fellt brott. Þannig fellst meiri hlutinn á þá tillögu sem er að finna í minnisblaðinu og leggur til að gildissvið frumvarpsins nái til greiðslna til höfunda eða annarra einstaklinga sem rétthafa vegna síðari afnota eftir að verk, samkvæmt 1. gr. höfundalaga, nr. 73/1972, hefur verið gert aðgengilegt almenningi, birt eða gefið út, samanber 2. og 3. gr. sömu laga.

Svo að ég skýri þetta enn frekar leggur meiri hlutinn áherslu á að gildissvið frumvarpsins nái eingöngu til greiðslna af verki í skilningi 1. gr. höfundalaga og jafnframt eingöngu að því gefnu að verkið hafi verið gert aðgengilegt almenningi í skilningi 3.–5. mgr. 2. gr. sömu laga eða þá að það sé gefið út samkvæmt höfundaréttarlögunum eins og það er skilgreint í 3. gr. þeirra laga.

Með orðunum „vegna síðari afnota“ er ætlunin að afmarka gildissvið frumvarpsins, annars vegar við tekjur sem falla til eftir að verk er gert aðgengilegt, birt eða gefið út, og hins vegar við tekjur sem skapast vegna afnota en ekki tekjur af sölu eintaka eða öðru því líku.

Með frumvarpinu var ekki ætlunin að hrófla við þeirri meginreglu að greiðslur vegna sölu á verkum sem jafna má við hverja aðra vörusölu, svo sem sölu á útgáfurétti, bókum, tónlist, myndverkum, aðgöngumiðum á listviðburði og öðru slíku, teldust til almennra tekna viðkomandi. Hið sama á við verði breytingartillaga meiri hlutans samþykkt. Sem dæmi má nefna að endurútgáfa bókar telst samkvæmt skilningi meiri hlutans til vörusölu og heyrir því ekki undir gildissvið frumvarpsins. Hið sama á við um kaup á lagi til afspilunar og aðrar beinar tekjur af seldum eintökum. Aftur á móti falla óbeinar tekjur af nýtingu á verki undir gildissvið þess, svo sem á við um tekjur vegna flutnings verks í útvarpi eða tónverks í leiksýningu, tekjur vegna notkunar listaverks á tækifæriskort, tekjur vegna upplestrar úr útgefnu bókmenntaverki o.s.frv.

Loks er rétt að taka fram að gildissvið frumvarpsins nær eingöngu til tekna einstaklinga sem rétthafa utan atvinnurekstrar en ekki til tekna lögaðila eða sjálfstætt starfandi aðila. Þar sem þær tekjur sem heyra undir frumvarpið teljast til eignatekna eftir gildistöku þess er allur frádráttur á móti þeim óheimill, líkt og tekið er fram í 1. gr.

Í minnisblaði ríkisskattstjóra til nefndarinnar er lagt til að sérstaklega verði tekið fram að ráðherra sé heimilt að setja reglugerð um nánari útfærslu á skattlagningu tekna af höfundaréttindum. Meiri hlutinn telur að heimild til setningar slíkrar reglugerðar rúmist innan ákvæðis 1. mgr. 121. gr. laga um tekjuskatt og hvetur til þess að hún verði nýtt til að skýra nánari atriði um útfærslu skattlagningarinnar innan marka laganna.

Að framansögðu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með breytingartillögu sem liggur frammi með nefndaráliti þessu.

Undir nefndarálitið skrifar Óli Björn Kárason formaður, Bryndís Haraldsdóttir framsögumaður, Njáll Trausti Friðbertsson, Ólafur Þór Gunnarsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Willum Þór Þórsson.

Svo að ég orði þetta meira á mannamáli en stendur í nefndarálitinu og textanum erum við í raun að fallast á það, sem oft hefur verið rætt í þessum geira, að það að skapa listaverk sé sambærilegt uppbyggingu annarra eigna og þar af leiðir að fyrir afnot af slíku verki greiðist fjármagnstekjuskattur, sambærilegt og ef viðkomandi byggir hús og leigir út íbúðirnar, þá greiðist af því sama skattprósenta og fjármagnstekjuskatturinn. Með þessu hyggjumst við vera að koma til móts við og hvetja enn frekar til skapandi greina. Þrátt fyrir að í upphaflega frumvarpinu sé tilgreint að áhrifin geti verið tekjutap fyrir ríkissjóð og þá líka tekjutap fyrir sveitarfélögin og það er ástæða til að geta þess að þær athugasemdir sem Samband íslenskra sveitarfélaga kom fram með við umfjöllunina, eins og Samband íslenskra sveitarfélaga er vant að gera og á að gera, huga að hagsmununum, held ég að engu að síður, það var alla vega mat okkar margra, að þetta geti á endanum leitt til þess að tekjurnar aukist. Þetta gefur ákveðið samkeppnisforskot fyrir Ísland, fyrir þá sem eru að gera góða hluti á sviði lista og menningar, að hvetja þá enn frekar til að hafa skattalegt lögheimili á Íslandi og skila skatttekjum til íslenska ríkissjóðsins.

Við teljum þetta vera í fullu samræmi við þá mikilvægu áherslu sem felst í því að styðja við skapandi greinar og ýta undir listsköpun og menningu hér á landi. Við leggjum því til að frumvarpið verði samþykkt svo breytt eins og lagt er til í nefndarálitinu.