149. löggjafarþing — 132. fundur,  2. sept. 2019.

breyting á þingsályktun nr. 26/148, um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.

791. mál
[11:48]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Með þingsályktunartillögu þessari er lagt til að gerð verði breyting á þingsályktun nr. 26/148, um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku. Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið með og á móti lagningu sæstrengs. Meiri hlutinn telur rétt að taka fram að með þingsályktunartillögu þessari er einungis verið að árétta að ákvörðunarvald um slíka framkvæmd liggur hjá Alþingi. Haldið hefur verið fram að ákvörðunarvald um lagningu sæstrengs kunni að færast frá íslenskum stjórnvöldum og gildi þingsályktunartillögunnar dregið í efa. Meiri hluti atvinnuveganefndar fellst ekki á þau sjónarmið. Að mati meiri hlutans er orðalag þingsályktunartillögunnar skýrt og tekur af öll tvímæli þar að lútandi. Ákvörðunarvald um lagningu sæstrengs mun ávallt og einvörðungu vera í höndum íslenska ríkisins. Auk þess fer ríkið með óskoruð yfirráð yfir náttúruauðlindum landsins.