150. löggjafarþing — 2. fundur,  11. sept. 2019.

stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.

[21:26]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Hæstv. landsmenn. Enn einu sinni eru ráðamenn að sannfæra launafólk, öryrkja og eldri borgara þessa lands um að svart sé hvítt og hvítt sé svart. Fjárlögin eru í boði Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Vinstri grænna og bera þess merki að þau eru ekki fyrir þá sem verst hafa það hér á landi heldur fyrir þá sem hafa það best.

Skattalækkanir sem boðaðar eru í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2020–2021, með nýju skattþrepi, eru ekki fyrir þá verst settu. Ávinningurinn af nýja þrepinu er að mestu tekinn til baka með lækkun persónuafsláttar og því er lækkunin ekki fyrir lífeyrisþega eða láglaunafólk heldur fyrir hátekjufólk. Þessi ríkisstjórn ætlar að rétta þeim verst settu í okkar samfélagi 10.000 kr. með vinstri hendinni í anda vinstri stefnu, en taka til baka 20.000 kr. með þeirri hægri í anda hægri stefnu og einnig að færa mismuninn til þeirra tekjuhæstu. Þeir sem eru með milljón krónur eða meira í laun fá hagnaðinn af því sem tekið verður frá þeim tekjulægstu. Það mun renna í breiða og djúpa vasa þeirra tekjuhæstu í boði ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Vinstri grænna.

Ef rétt væri gefið ætti persónuafsláttur að hækka það mikið að lægstu laun og lífeyrislaun væru nú þegar skattlaus. Þá væri ríkisstjórnin að færast nær því að hætta að skatta sárafátækt. Þá ætti strax að setja á hátekjuskatt og afnema persónuafslátt af hátekjufólki því að þeir tekjuhæstu hafa ekki þörf fyrir persónuafslátt.

Ef þessi ríkisstjórn og fyrri ríkisstjórnir hefðu staðið við hækkanir á persónuafslætti og lífeyrislaunum frá Tryggingastofnun ríkisins, frá því að tekin var upp staðgreiðsla skatta 1988, væru launin yfir 300.000 kr., skatta- og skerðingarlaust, í dag en ekki rúmlega 200.000 kr. sem er sú hungurlús sem mörgum eldri borgurum og veiku fólki er boðið í dag til að reyna að lifa á.

Virðulegur forseti. Hæstv. landsmenn. Nú í vor náðust lífskjarasamningar á almennum vinnumarkaði og komu stjórnvöld að gerð þess samnings. En auðvitað eru þeir sem verst hafa það í þeirra boði skildir eftir. Enn og aftur eru það eldri borgarar og öryrkjar á lífeyrislaunum frá Tryggingastofnun ríkisins. Allt of mörg börn búa við fátækt á Íslandi í dag og það er okkur öllum hér inni til háborinnar skammar. Ég er miður mín yfir því að við sem búum í þessu auðuga og gjöfula landi skulum leyfa okkur að láta þúsundir barna lifa í fátækt og því miður einnig í sárafátækt.

Hvers vegna mismunum við veiku fólki? Hvers vegna erum við með styrki fyrir veikt fólk en látum það ekki vita af þeim? Erum við með styrkjakerfi fyrir veikt fólk til að sýnast? Og ef ekki: Hvers vegna vita þeir sem nauðsynlega þurfa á styrkjum að halda ekki af þeim? Hvers vegna? Hvers vegna er verið að reka kerfi fyrir veikt fólk í okkar heilbrigðiskerfi þannig að þau virka ekki lengur? Fjölgun öryrkja er mýta. Því miður á nú að fjölga þeim stórlega með því að ráðast á það sem dregið hefur úr fjölgun öryrkja, þ.e. sjúkraþjálfun. Enn á að hrista upp það kerfi sem virkar.

Hækkun barnabóta og hækkun skerðingarmarka þeirra dugar engan veginn til. Á barnafólki skella hækkanir á ýmsum gjöldum úr öllum áttum, t.d. fasteignagjöldum, bifreiðagjöldum, sóknargjöldum, útvarpsgjöldum, sorpeyðingargjöldum og fleiri gjöldum og sköttum. Það eru gjöld sem ekki bara éta upp þann litla ávinning sem boðaður er í fjárlagafrumvarpinu heldur valda því að þeir verst stöddu verða að herða fastar sultarólina.

Virðulegur forseti. Hæstv. landsmenn. Hvað er að hjá ríkisstjórn eftir ríkisstjórn sem nærir þá auðugu á kostnað þeirra sem verst hafa það hér á landi? Fólk sem á ekki til hnífs og skeiðar býr einnig á leigumarkaði við óheyrilega háan leigukostnað með tilheyrandi óöryggi. Flokkur fólksins berst gegn fátækt. Það að verið sé að búa til fátæktarvíti fyrir þá sem verst hafa það hér á landi, að þeir verst settu í okkar þjóðfélagi megi líða nauð og þeir ríku fái meiri og meiri auð — við sættum okkur ekki við það.