150. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[10:52]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra framsöguræðuna. Í fyrsta lagi vil ég byrja á að spyrja hann aðeins út í samnýtingu skattþrepa. Í fjárlagafrumvarpinu og fjármálaáætlun kemur fram skýr vilji ríkisstjórnarinnar til að draga úr umfangi samnýtingar skattþrepa. Í fjárlagafrumvarpinu segir um breytingar á tekjuskatti einstaklinga að um áramót komi til framkvæmda fyrri áfangi innleiðingar nýs tekjuskattskerfis. Þar kemur fram að dregið verði úr umfangi samnýtingar skattþrepa.

Ef við skoðum síðan fjármálaáætlun fyrir 2020–2024 kemur þar fram að samnýting skattþrepa sambúðaraðila verði felld brott. Það hefur að sjálfsögðu áhrif á þá sem hafa nýtt sér þetta úrræði. Síðan gerist það bara fyrir þremur dögum að þá kemur tilkynning á vef fjármála- og efnahagsráðuneytisins þar sem segir: „[Er] rétt að árétta að heimild til samnýtingar skattþrepa, sem innleidd var í skattkerfið 2010, verður einnig óbreytt í nýju skattkerfi.“

Ég verð að spyrja hæstv. fjármálaráðherra: Hverju á að taka mark á hér? Á að taka mark á fjármálaáætlun og fjárlagafrumvarpinu eða einhverjum tilkynningum embættismanna í fjármálaráðuneytinu? Hvað er það sem gildir?

Á að draga úr, hæstv. fjármálaráðherra, samnýtingu skattþrepa eða á ekki að gera það? Ég held að það verði að fá þetta fram. Þetta er mjög óskýr framsetning og stefnumörkun sem er bara þvers og kruss.