150. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[12:54]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Bætur almannatrygginga hækka um 3,5% með þessum fjárlögum. Kjör þessa hóps voru bætt umtalsvert við lok síðasta þings með því að draga úr vægi sérstöku framfærsluuppbótarinnar og sú breyting hefur jákvæð áhrif á hluta hópsins. Það eru kjarabætur sem gagnast einnig örorkulífeyrisþegum þó að því verði að halda til haga að þær gagnast ekki öllum. Hins vegar hefur verið lögð mikil áhersla á að draga úr vægi tekjutengingar sérstöku framfærsluuppbótarinnar, bæði í þingsal en einnig af hálfu Öryrkjabandalags Íslands. Þar eru líka kjarabætur sem gagnast þeim hópi.

Svo eru tekjuskattsbreytingar í fjárlagafrumvarpinu, eins og ég fór yfir áðan, sem munu gagnast lífeyrisþegum eins og öðrum láglaunahópum sem og aðgerðir í húsnæðis- og heilbrigðismálum. Í heilbrigðismálunum hefur einmitt verið lögð áhersla á að létta álögurnar á lífeyrisþegum. Þetta skiptir allt saman máli þegar við skoðum heildarmynd af kjörum örorkulífeyrisþega.

Að þessu öllu sögðu tel ég að hér með séum við ekki búin að setja punktinn yfir i-ið og komin á þann stað að við ætlum ekki að gera meira fyrir þennan hóp. Þar þarf að sjálfsögðu að halda áfram (Forseti hringir.) og ég bind vonir við það að við höldum áfram með þá vinnu sem fór fram í samráðshópi um breytingar á almannatryggingakerfinu um það hvernig megi bæta kjör þessa hóps sérstaklega og að á henni verði byggt.