150. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[12:57]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að viðurkenna að það slær ekki á áhyggjur mínar og efasemdir um að þessi ríkisstjórn ætli að bæta kjör þeirra sem fátækastir eru í landinu þegar ég hlusta á hæstv. fjármálaráðherra tala um almennar skattbreytingar í sömu andrá og spurt er út í sérstaka stöðu fátækasta fólksins á Íslandi. Þar á meðal eru þeir sem þurfa að treysta eingöngu á greiðslur frá Tryggingastofnun og þær eru undir 250.000 kr. Aðeins þeir sem fá uppbótina fá rétt um 300.000 kr.

Ég varð fyrir vonbrigðum með svar hv. þingmanns. Það er ekki réttlætanlegt að benda á almennar aðgerðir, það þarf að skoða þennan hóp alveg sérstaklega og ég vona að það verði gert þó að svona hafi verið svarað að þessu sinni.

Ég vil spyrja hv. þingmann út í barnabætur vegna þess að hún nefndi þær í ræðu sinni. Milli áranna 2013 og 2018 fækkaði barnafjölskyldum sem fengu barnabætur um 13.000. Með breytingunum sem voru gerðar í ár átti þeim að fjölga um 2.000 en þegar ég hringdi um mitt ár til að kanna fjöldann hafði þeim fjölgað um rétt 1.000 á árinu 2019. 1 milljarður til viðbótar gerir varla mikið meira en að fjölga þeim lítillega þannig að við eigum langt í land með að ná árinu 2013, en það skref sem við tókum þá var hugsað sem skref í áttina að því að jafna stöðu barnafólks við stöðu þeirra sem ekki eru með börn á framfæri.

Ég spyr hv. þingmann hvort hún sé sátt við það að ríkisstjórnin líti til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins til fyrirmyndar um barnabætur en ekki til Norðurlanda.