150. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[15:05]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég gat auðvitað ekki stillt mig um, sem gamall þjálfari, fyrst hv. þingmaður gaf færi á því og fór að nefna einstaka nefndarmenn í hv. fjárlaganefnd og frammistöðu þeirra, að tala um liðsheildina og skerpa á því hlutverki sem við höfum og hrósa liðinu.

Ég get tekið undir hvert orð varðandi vaxtalækkun og forsendur vaxtalækkunar. Í þessari orrahríð hér og umræðu um fjárlög þá tökumst við á og eigum auðvitað að takast á um ólík sjónarmið en líka að draga fram það sem er mikilsvert, sérstaklega þegar kemur að hagstjórn. Það eru vísbendingar um að ábyrg ríkisfjármálastefna og ábyrgir kjarasamningar vinni nú saman en lengi hefur verið gagnrýnt að það sé skortur á samspili. Í fyrsta sinn gefur margt til kynna að þetta sé að vinna saman og við erum þá í færum að leggjast á sveif gegn niðursveiflunni þannig að við náum okkur hratt út úr henni og hraðar en ella. Ég get tekið undir hvert orð og við eigum auðvitað að fagna því þegar svona hlutir gerast og (Forseti hringir.) vonandi í framhaldinu náum við enn betri tökum á hagstjórn að þessu leyti.