150. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[15:36]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið og fyrir að draga mig út úr umræðunni um hagspárnar. Þetta er mjög góð spurning: Er einhvers staðar of lítið gert? Ef við byrjum á fjárfestingunni, alveg klárlega. Við sjáum það á götum Reykjavíkurborgar og höfuðborgarsvæðisins í umferðaröngþveitinu og í þeim mikilvægu fjárfestingum sem setið hafa á hakanum í gatnakerfinu á suðvesturhorninu í áratug. Gatnakerfið hefur verið fjársvelt. Við erum að tala um mikilvægar fjárfestingar eins og að ljúka tvöföldun á Reykjanesbrautinni, ljúka tvöföldun á Suðurlandsvegi, ný brú yfir Ölfusá o.s.frv., sem nú er boðað að við þurfum að greiða fyrir sérstaklega með veggjöldum. Þetta hefur allt saman verið svelt á þeim tímapunkti í hagkerfinu sem hefði verið mjög gott að geta ráðist í slíkar framkvæmdir, t.d. strax eftir hrun og núna þegar við sjáum þennan slaka.

Við sjáum þetta auðvitað á vegakerfinu um allt land, á ástandi malbiksslitlags og hversu margar einbreiðar brýr eru hér enn þá. Fjárfesting okkar í vegakerfinu hefur engan veginn haldið í við þá miklu aukningu sem hefur orðið á umferð samhliða þeirri sprengju sem hefur orðið í ferðamannaiðnaði. Við höfum þegið tekjurnar af ferðaþjónustunni en við höfum ekki fjárfest í innviðum okkar til að mæta þeim sömu ferðamönnum. Það er mjög skýrt merki um þetta fjársvelti.

Við sjáum það líka í skorti á uppbyggingu hjúkrunarrýma. Aftur og aftur er verið að slá á frest áformum um uppbyggingu hjúkrunarrýma, nú síðast í fjárlagaumræðunni fyrir tæpu ári, þá var verkefnum þar slegið á frest og dregið úr. Við sjáum einfaldlega að við erum að lenda í miklum vandræðum þar. Þarna getum við víða gert mun betur.

Hvað varðar rekstur heilbrigðiskerfisins vil ég og við í Viðreisn auka við og bæta þá þjónustu sem við veitum í heilbrigðiskerfinu. En við viljum um leið benda á að það þurfa að vera skýr árangursmiðuð markmið en ekki einungis útgjaldamarkmið. Það að láta reka á reiðanum í rekstri er ekki árangursrík stjórnunaraðferð og það er bara reynslan í stjórnun alls staðar, (Forseti hringir.) hvort sem er í opinberum rekstri eða einkarekstri, að oft, nánast alltaf, er hægt að finna leiðir til að veita þjónustu (Forseti hringir.) betur en um leið með skilvirkari hætti.