150. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[16:08]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Mér þóttu áhugaverð skoðanaskipti hv. þm. Birgis Þórarinssonar og hæstv. fjármálaráðherra í morgun um stóra samsköttunarmálið. Í fjárlagafrumvarpi 2020 segir að umfangsmesta skattbreytingin í fjárlagafrumvarpinu sé á tekjuskatti einstaklinga og segir á bls. 107, með leyfi forseta:

„Dregið verður úr umfangi samnýtingar skattþrepa með innleiðingu nýs grunnþreps og hækkun skattprósentu miðþreps.“

Þessi afdráttarlausa yfirlýsing kemur heim og saman við það sem segir um sama málefni í tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun fyrir árin 2020–2024. Þar segir á bls. 79 að í febrúar 2019 hafi fjármála- og efnahagsráðherra kynnt fyrirætlanir stjórnvalda sem feli í sér þrenns konar veigamiklar breytingar á tekjuskatti einstaklinga. Á bls. 82 segir síðan, með leyfi forseta:

„Í þriðja lagi að samnýting skattþrepa sambúðaraðila verði felld brott. Brottfall samnýtingar skattþrepa er skref í þágu bæði einfaldara skattkerfis og kynjajafnréttis. Samnýtingin hefur falið í sér að í þeim sambúðum þar sem annar aðilinn er yfir þrepamörkum tekjuskatts og hinn undir fær tekjuhærri einstaklingurinn endurgreiðslu við álagningu tekjuskatts.“

Mat á fjárhæðum í þessu sambandi kemur fram í skýrslu sérfræðingahóps um endurskoðun tekjuskatts og bótakerfa sem kynnt var í febrúar. Með leyfi forseta:

„Eftir breytingu í tveggja þrepa kerfi verður hæsta mögulega upphæð sem færist á milli skattþrepa rúmar 5 millj. kr.“

Síðan segir, með leyfi forseta:

„Við álagningu ársins 2018 á tekjur ársins 2017 nam þessi fjárhæð nálægt 3,5 milljörðum kr.“

Þar hafa menn fjárhæðina sem liggur undir, 3,5 milljarðar.

Eftir að tveir þingmenn Miðflokksins höfðu vakið athygli á þessum fyrirætlunum ríkisstjórnarinnar sem svo ótvírætt er lýst í fjárlagafrumvarpi og tillögu til þingsályktunar um fjármálastefnu fyrir árin 2020–2024 brá svo við að hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra og flokksbróðir hans, hv. þm. Óli Björn Kárason, vildu ekki kannast við hina mörkuðu stefnu. Greip hinn síðarnefndi til stóryrða, m.a. með því að kalla ábendingar þingmanna Miðflokksins um hvað stæði í umræddum þingskjölum gaspur.

Hinn 9. september sl. birti fjármála- og efnahagsráðuneytið frétt undir yfirskriftinni „Rangfærslur um skattalækkun leiðréttar“ þar sem segir að samsköttun hjóna og sambúðarfólks sem geri fólki kleift að samnýta persónuafslátt verði áfram heimil í skattkerfinu.

Herra forseti. Ég fagna þessari stefnubreytingu sem fjármálaráðherra staðfesti í umræðunum í morgun. Það er gott til þess að hugsa að Miðflokkurinn hafi með málflutningi sínum átt þátt í betri niðurstöðu í þessu mikilvæga máli um samsköttun sem ríkisstjórnin hafði skýr áform um.

Herra forseti. Í tengslum við nýkynnt fjárlagafrumvarp hafa orðið umræður um sífellt aukin útgjöld ríkisins og er ekki vanþörf á. Það er sérstakt skoðunarefni hvernig báknið er að þenjast út og er að sumu leyti til marks um ófullnægjandi aðhald með útgjöldum hins opinbera. Og hvað segja stjórnarþingmenn sjálfur um þetta? Í grein hv. þm. Óla Björns Kárasonar í Morgunblaðinu í vikunni kom fram að frá árinu 2017 til næsta árs, á þremur árum, sé gert ráð fyrir að útgjöld ríkisins aukist um 139 milljarða kr. eða um 18% að raungildi. Þessar tölur eru til marks um hamslausa útþenslu báknsins. Ef horft er lengra aftur verða tölurnar enn meira sláandi og ættu að vekja fólk til umhugsunar um að nauðsynlegt sé að stöðva útgjaldaaukninguna eigi ekki illa að fara.

Á vef Hagstofunnar má sjá línurit yfir þróun útgjalda hins opinbera, ríkis og sveitarfélaga, frá árinu 1980–2018 eða 38 ára tímabili. Árið 1980 voru útgjöld hins opinbera 34% af landsframleiðslunni en voru 42% í fyrra. Haldi þessi vöxtur áfram verður hlutur hins opinbera kominn í u.þ.b. helming landsframleiðslunnar um miðja öldina. Flestir hljóta að vera sammála um að slík þróun er ískyggileg. Hluti af þessum vexti kemur fram hjá ríkinu sem er með rúm 30% af landsframleiðslu en ört vaxandi hlutur sveitarfélaganna, sem hafa farið úr 7% í 13% landsframleiðslunnar, er enn meira áhyggjuefni. Nauðsynlegt er, herra forseti, að stjórnmálamenn, bæði í sveitarstjórnum og á Alþingi, séu meðvitaðir um þessa hættulegu þróun og grípi til ráðstafana til að draga úr umsvifunum áður en það verður um seinan.

Herra forseti. Undanfarið hefur verið dæmafátt góðæri og ríkisstjórnin hefur á sama tíma látið það viðgangast að stjórnkerfið hefur vaxið stjórnlítið. Sífellt bætast við nýjar stofnanir og þær sem fyrir eru bólgna út með hverju árinu. Starfsmönnum fjölgar og húsnæðið stækkar, sérstaklega hér á höfuðborgarsvæðinu. Ef upp koma hugmyndir um að draga saman seglin í ríkisrekstri er fyrsta svarið alltaf að leggja niður þær örfáu ríkisstofnanir sem staðsettar eru úti á landi. Það nýjasta eru sýslumannsembættin. Þeim hefur fækkað úr 27 í níu á nokkrum árum og enn skal haldið áfram svo að nefnt sé nýlegt dæmi úr Vestmannaeyjum. Fyrir nokkrum dögum var stungið upp á því hér í borginni að fækka lögregluembættum og helst ætti bara að vera eitt slíkt. Og hvar ætli það muni verða staðsett?

Báknið í höfuðborginni vex eins og gorkúlur á fjóshaug. Nýstofnuð Íslandsstofa telur nú tæplega 40 starfsmenn nokkrum mánuðum eftir að hún var stofnsett. Forsætisráðuneytið hefur bólgnað út í tíð núverandi ríkisstjórnar og hliðarherbergjum þar fjölgar stöðugt. Það nýjasta eru áform um að stofna sérstakan samstarfsvettvang á vegum forsætisráðuneytisins um ævi og minningu Jóns forseta, sem er í sjálfu sér hið besta mál. Hugmyndir eru uppi um að stofna þjóðgarðastofnun og ekki er erfitt að gera sér í hugarlund hver starfsmannafjöldinn verður þar innan dyra fljótlega miðað við þann veldisvöxt sem hefur verið á gæluverkefnum ríkisstjórnarinnar. Ríkisstjórnin virðist staðráðin í því að setja á stofn þjóðarsjóð sem er einhvers konar smáborgararstæll okkar til að líkja eftir Norðmönnum og skaffa vildarvinum hálaunastörf við umsýslu fjárins.

Herra forseti. Er ekki réttara að gera hlutina einfalda hér í okkar ágæta landi og geyma þá aura sem kunna að verða afgangs í okkar gamla, góða ríkissjóði eða einfaldlega nýta þá til fjárfestinga, t.d. í samgöngukerfinu? Stöðugt sjóðasukk hjá örþjóð eins og Ísland er tel ég ekki auka líkur á ráðdeild og aga í fjármálum. Verkefnin virðast oft og tíðum vera stjórnendum og ráðamönnum ofviða og eina ráðið er að setja á stofn ný embætti, nýjar stofnanir, flækja kerfið og auka kostnað sem leggst síðan með auknum þunga á skattgreiðendur, einstaklinga og fyrirtæki í landinu. Báknið blæs út sem aldrei fyrr.

Herra forseti. Mikilvægt er, og þá sérstaklega í góðæri, að sýna festu og aga í ríkisfjármálum. Það er augljóst að ríkisstjórnin hefur nægar hugmyndir um að stofnsetja ný embætti og auka við þau sem fyrir eru, enda verkefnin mörg og flokkarnir í ríkisstjórn með afskaplega breiðan hóp sem höfða á til og leitast á við að halda ánægðum. En ef samdráttur verður er erfitt að snúa til baka og það er erfitt að draga saman seglin einmitt þegar áríðandi er að stjórnvöld hafi borð fyrir báru til að örva atvinnulífið með því að halda uppi atvinnu og framkvæmdum.

Herra forseti. Ríkisstjórnin tilkynnir undir trommuslætti að nú skuli lækka skatta, þó aðallega síðar eða á árinu 2021, þ.e. á kosningaárinu. Þau ætla sem sagt að eftirláta næstu ríkisstjórn útgjöldin sem þau slá sig til riddara með nú. Látum það vera. En hver eru áhrifin af þessum skattalækkunum samanborið við þær skattahækkanir sem ríkisstjórnin boðar og áformar á sama tíma og jafnvel fyrr? 2,5% hækkun á útvarpsgjaldi til að standa undir risavöxnum rekstri ríkisfjölmiðilsins sem alltaf er í járnum, hækkun tóbaks- og áfengisgjalds, áframhaldandi hækkun kolefnisgjalds sem lagt er á þótt bent hafi verið á að það sé fullkomlega órannsakað hvort álagning þess hafi einhver minnstu áhrif til minnkunar á losun gróðurhúsalofttegunda og er þannig einungis enn einn skatturinn, bara færður í fallegri búning. Á það hefur verið bent að áform stjórnvalda um álagningu sykurskatta koma e.t.v. harðast niður á þeim sem síst skyldi og væri nær að beina sjónum að því að styrkja fremur framleiðslu og neyslu á hollum afurðum, en sykurskattar hafa reyndar yfir sér miklu indælla yfirbragð og eru undir sömu sök seldir og hinir afskaplega ljúfu kolefnisskattar.