150. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[16:24]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Já, ég þakka hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra fyrir þessar útskýringar enn og aftur, þar sem hann ítrekar þetta. Auðvitað er það skiljanlegt og ég skil það fullvel að ríkisstjórnin þarf einhvers staðar að taka þann aur sem hún hyggst nýta til að getað lækkað skatta á þá lægst launuðu. Auðvitað átta ég mig á því og ég skil það mætavel en þetta verður að vera skýrt. Þetta verður að vera skýrt í fjármálaáætlun. Þetta verður að vera skýrt í fjárlagafrumvarpinu þannig að fólk skilji og átti sig á því. En þetta voru sannarlega fyrirætlanir og þarna var athugun í gangi. Við bentum á þetta og við erum kallaðir gasprarar sem ég vil algjörlega mótmæla. Við höfum rökstutt okkar mál algjörlega og hæstv. ráðherra hefur tekið undir það og tilkynnt okkur að ekki standi til að skerða rétt sambúðarfólks og hjóna til samsköttunar eins og verið hefur í fjöldamörg ár.