150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[09:33]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég ætla ekki að nýta mitt innlegg í upphafi þessarar umræðu til að fjalla sérstaklega um málaflokka forsætisráðuneytisins en ég mun að sjálfsögðu bregðast við öllum þeim spurningum sem fram kunna að koma hjá hv. þingmönnum um þá málaflokka. Það eru almennt litlar breytingar á útgjaldaliðum forsætisráðuneytis nema hvað varðar viðbyggingu við Stjórnarráðið sem kann að koma upp í umræðunni, ef ég þekki hv. þingmenn rétt.

Ég vil hins vegar nýta tíma minn hér til að ræða almennt um stóru línurnar í fjárlagafrumvarpinu. Að sjálfsögðu byggist það á fjármálaáætluninni sem var samþykkt í vor fyrir árin 2020–2024 og endurskoðaðri fjármálastefnu þar sem mitt mat og ríkisstjórnarinnar er að við séum að bregðast skynsamlega við þeim áskorunum sem íslenskt efnahagslíf stendur frammi fyrir.

Hér hafa hv. þingmenn í umræðum gærdagsins rætt töluvert um forsendur frumvarpsins, þ.e. á hvaða forsendum var byggt. Þetta frumvarp byggir á spá Hagstofunnar frá því í maí sem eru þau gögn sem við byggjum á, er sá grundvöllur sem við byggjum alla okkar áætlanagerð á. Ég get ekki tekið undir það að þetta frumvarp sé byggt á of bjartsýnum forsendum. Við byggjum einfaldlega á þeim faglegu gögnum sem við höfum sem ég tel mun sterkari grundvöll en tilfinningar einstakra þingmanna, með fullri virðingu fyrir þeim öllum.

Staða efnahagsmála á Íslandi er sterk og ég tel að ef við skoðum hagstjórn síðustu áratuga þá höfum við verið að ná fram verulegum úrbótum í ólíkum ríkisstjórnum þegar kemur að því að styrkja stoðir ríkisfjármála, peningastefnu og vinnumarkaðar. Við höfum tekið upp ný lög um opinber fjármál. Við höfum búið í haginn með því að skila verulegum afgangi sem nýtist okkur vel þegar við stöndum frammi fyrir áskorunum eins og þeim sem við stöndum frammi fyrir nú.

Við höfum séð hvernig peningastefnan og vinnumarkaðurinn spila saman í kjölfar lífskjarasamninga í vor. Í kjölfar þeirra áfalla sem urðu hér, annars vegar loðnubrestur og hins vegar í flugrekstri, hefur Seðlabankinn lækkað stýrivexti sína um heilt prósentustig á tiltölulega skömmum tíma þannig að vextir hafa aldrei verið lægri, meginvextir Seðlabankans. Það er gríðarstórt hagsmunamál almennings í landinu en sýnir líka að hagstjórnin er að skila árangri og ég held að það sé lykilatriði. Lífskjarasamningarnir byggja á nýjum forsendum í kjarasamningagerð sem ég tel sömuleiðis að muni reynast farsælar þar sem launafólki er tryggð hlutdeild í hagvexti. Þetta er ný nálgun og við eigum að sjálfsögðu eftir að sjá hvernig hún mun reynast en þar ríður auðvitað á að allir þeir sem gáfu yfirlýsingar í kringum þá samninga, hvort sem er atvinnurekendur eða stjórnvöld, standi undir þeim væntingum sem til þeirra eru gerðar. Við munum eiga reglubundna fundi með fulltrúum vinnumarkaðarins um það hvernig framgangur mála er þegar kemur að þeim 45 aðgerðum sem ríkisstjórnin kynnti í tengslum við lífskjarasamninga.

Þá vil ég sömuleiðis nefna að við leggjum áherslu á það, ríkisstjórnin, að auka opinbera fjárfestingu til að vinna gegn slaka í hagkerfinu. Framlög til opinberrar fjárfestingar í fjárlagafrumvarpinu fyrir næsta ár eru um 80 milljarðar kr. og þau hafa aukist að raungildi um 27 milljarða kr. á ársgrundvelli frá árinu 2017. Þetta er rétti tíminn til að ráðast í opinbera fjárfestingu þegar kemur að hagstjórninni en ekki síður vegna þess að við erum með verulega uppsafnaða þörf þegar kemur að fjárfestingum hins opinbera. Nægir þar að nefna samgöngumálin, sem þingmenn hafa rætt, en líka mikilvæga innviði á borð við nýjan Landspítala.

Ég vil á síðustu mínútunni nefna þær umbætur í félagsmálum sem tengjast sérstaklega lífskjaramálum, þ.e. lengingu fæðingarorlofs, hækkun barnabóta og skerðingarmarka barnabóta og auðvitað skattkerfisbreytingarnar sem eru líka risastórt lífskjaramál þar sem við erum að innleiða þriggja þrepa skattkerfi til að tryggja aukið réttlæti í skattkerfinu þannig að þrepamörkin fylgi sambærilegum mælikvörðum framleiðni og verðbólgu. Þetta er nýjung og þetta skiptir verulegu máli ef við viljum tryggja tekjujöfnunarhlutverk skattkerfisins. Tryggingagjaldið lækkar sömuleiðis, sem er einmitt mjög mikilvæg aðgerð inn í þær aðstæður sem við búum við í efnahagsmálum þar sem við erum að skapa fyrirtækjunum aukið svigrúm til að bregðast við kólnun í hagkerfi og gagnast best litlum og meðalstórum fyrirtækjum.

Ég hef kannski ekki mikið meiri tíma til að ræða þessi mál en ég vil hins vegar segja að heilt yfir tel ég að þetta fjárlagafrumvarp beri vott um skynsemi í efnahagsstjórn, jafnvægi milli lykilþátta peningastefnu, ríkisfjármála og vinnumarkaðsmála en feli um leið í sér skýrar aðgerðir til að tryggja bæði efnahagslegan og félagslegan stöðugleika til lengri tíma. Ég ítreka að ég tel að íslenska hagkerfið sé mjög vel í stakk búið til að takast á við þær áskoranir sem við okkur blasa.