150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[09:43]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Hinn mikli fjöldi pólitískra aðstoðarmanna ríkisstjórnarinnar lendir náttúrlega ekki allur á reikningi forsætisráðuneytisins heldur deilist á ráðuneytin og hvort sem þetta er allt saman gefið upp hér strax í fjárlögum eða von á meiru síðar breytir það ekki því að aldrei hafa jafn margir pólitískir aðstoðarmenn verið ráðnir til starfa fyrir ríkisstjórn. Hún hefur kosið að fullnýta þær heimildir sem áttu að vera, ef ég skildi rétt þegar frumvarpið var lagt fram á sínum tíma, til vara og haldið fram að yrðu varla fullnýttar. En það gerir þessi ríkisstjórn mjög fljótt.

Varðandi fjölgun starfsmanna forsætisráðuneytisins hefur verið bent á, til viðbótar við almenna yfirlýsingu sem fylgdi í svari hæstv. forsætisráðherra, að ráðuneytið hafi tekið jafnréttismálin til sín. En ráðuneytið var með jafnréttismálin nema um skamma hríð í kringum 2017 svo að það eitt og sér hefði ekki átt að kalla á þessa miklu fjölgun. Raunar hefur ráðuneytið gefið eftir ákveðna málaflokka sem það hafði áður. Þess vegna stingur mjög í stúf að sjá hversu gríðarlega miklu er aukið við framlög til forsætisráðuneytisins og virðist það gefa tóninn fyrir útgjaldaaukningunni almennt.

Hæstv. forsætisráðherra nefnir uppsafnaða þörf. Jú, vissulega var uppsöfnuð þörf til staðar víða og sums staðar þurfti að bæta við. En þurfti að bæta svona miklu við í ráðuneyti hæstv. forsætisráðherra? Hefði ekki verið skynsamlegra að nýta þetta fjármagn annars staðar og uppfylla uppsafnaða þörf á öðrum sviðum, hvort sem væri í heilbrigðismálum, samgöngumálum eða annars staðar? Forsætisráðuneytið er einfaldlega að leggja línuna með þennan gríðarlega vöxt báknsins, kerfisins, sem við horfum upp á í tíð þessarar ríkisstjórnar.